Fastir pennar

Fastir liðir eins og venjulega

Þorvaldur Gylfason skrifar
Sagan hefur svartan húmor, stundum kolsvartan. Hún endurtekur sig ef menn fást ekki til að læra af henni. Hér eru að gefnu tilefni fáeinar orðréttar tilvitnanir í eigin skrif um bankamál frá árunum 1987-2016.

• „Skipulagsvandi bankakerfisins er óleystur enn.“ (Morgunblaðið, 14/8/1987).

• „ … er það auðvitað afar brýnt, að þannig verði staðið að einkavæðingunni, þegar þar að kemur, að hún verði á engan hátt til þess að rýra traust bankanna innan lands eða út á við.“ (Fjármálatíðindi, 1993).

• „Einkavæðingu Landsbankans er bersýnilega ekki lokið.“ (Fréttablaðið, 20/2/2003).

Sérpússuð silfurföt

• „Eitt er næsta víst um stjórnmálamenn og flokka, sem hafa látið sig hafa það að afhenda fáum útvöldum verðmætar sameignarauðlindir á sérpússuðu silfurfati í stað þess að setja upp sanngjarnt verð, og það er þetta: þeim er þá varla heldur treystandi til að koma ríkisfyrirtækjum í verð. Úr því að þeir afhentu völdum útvegsmönnum fiskikvótann án endurgjalds (og harðneita enn sem fyrr að opna flokksbækurnar aftur í tímann), hví skyldu þeir þá ekki hafa sama háttinn á einkavæðingu ríkisfyrirtækja? … Í þeim löndum, þar sem fyrirtæki hafa verið færð úr ríkiseigu í einkaeign undanfarin ár, hafa víða verið sett sérstök lög til að tryggja, að einkavæðingin nái tilgangi sínum og rétt verð fáist fyrir eignirnar, og einnig til að girða fyrir mistök eða bæta fyrir þau í tæka tíð. Í slíkri löggjöf eru því gjarnan endurskoðunarákvæði til taks, komi t.d. á daginn, að almannahagur hafi verið borinn fyrir borð. Hér hafa engin slík ákvæði verið leidd í lög.“ (Fréttablaðið, 2. júní 2005.)

• „Einkavæðing bankanna var klæðskerasaumuð handa einkavinum valdsins svo sem ráða má t.d. af lögum frá 2002 um fjármálafyrirtæki, en þar stendur í 52. grein: „Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, ...“ Höfundur þessa lagatexta mætti gjarnan gefa sig fram. … Rökin fyrir því, að ríkið eigi helzt ekki að standa í bankarekstri, ekki frekar en öðrum rekstri, sem heilbrigt einkaframtak ræður við, standa enn óhögguð. Gildir þá einu, að ríkisbankarekstur tíðkast sums staðar erlendis, t.d. í Þýzkalandi, og ríkið hefur víða þurft að koma bönkum til bjargar, m.a.s. í Bandaríkjunum. Spillt einkavæðing er ekki áfellisdómur yfir einkavæðingu, heldur yfir spillingu.“ (DV, 11/11/ 2011)

• „Frumvarp Eyglóar Harðardóttur alþingismanns um, að birtar verði upplýsingar um, hverjir hafa fengið afskrifaðar skuldir yfir 100 mkr. í bönkunum, náði ekki fram að ganga á Alþingi. Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (2. bindi, bls. 200-201), að tíu alþingismenn skulduðu bönkunum hver um sig 100 mkr. eða meira, þegar bankarnir hrundu, sumir miklu meira. Meðalskuld þessara tíu þingmanna við bankana var 900 mkr. Enn hefur ekki verið upplýst, hversu farið var með þessar skuldir alþingismannanna tíu. Hver getur tekið mark á slíkum þingmönnum í umræðum um bankamál? … Þessar upplýsingar skipta máli vegna þess, að bankarnir hafa látið bera varnarlausa viðskiptavini út af heimilum sínum í stórum stíl ... Bankaleynd á rétt á sér að vissu marki, en henni má ekki misbeita til að mismuna viðskiptavinum bankanna. Í bönkum eins og annars staðar eiga allir að sitja við sama borð.“ (DV, 15/3/2013).

• „Án heilbrigðrar erlendrar og innlendrar samkeppni jafngildir bankarekstur leyfi til að prenta peninga með því að rýja varnarlausa viðskiptavini inn að skinni.“ (Fréttablaðið, 5/2/2015).

Skraddarasaumur handa einkavinum

• „Einkavæðing bankanna 1998-2003 mistókst svo hrapallega að Ísland varð að viðundri þegar bankarnir hrundu allir sem einn 2008. Lagaskilyrði sem eigendur banka þurfa að uppfylla voru skraddarasaumuð handa einkavinum. Í ljósi reynslunnar er ærin ástæða til að vera nú á varðbergi gagnvart áformum ríkisstjórnarinnar um eignarhald bankanna, ríkisstjórnar sem vílar ekki fyrir sér að afhenda örfáum útvegsmönnum tugmilljarða virði í makrílkvóta, meðan heilbrigðiskerfið getur ekki sinnt frumskyldum vegna fjárskorts.“ (Fréttablaðið, 7/5/2015).

• „ … 7. nóvember 2012, samþykkti Alþingi að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd til að rannsaka einkavæðingu bankanna 1998-2003 … Þingsályktunartillagan var samþykkt samhljóða með 24 atkvæðum, en 11 þingmenn sátu hjá og 28 voru fjarstaddir … Meðal þeirra 24 þingmanna sem stóðu að samþykkt tillögunnar var Pétur H. Blöndal sem nú er látinn, en enginn annar sjálfstæðismaður og enginn framsóknarmaður studdi samþykktina. … Með einni heiðvirðri undantekningu höfðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar engan áhuga á að rannsaka einkavæðingu bankanna … Arionbanki og Landsbankinn sæta nú harðri gagnrýni fyrir að selja eigur úr safni sínu völdum aðilum á „hóflegu verði“ eins og ekkert hafi í skorizt. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks býst nú til að einkavæða banka á nýjan leik án þess að hafa gert upp við árin 1998-2003. Þeir sem neita að læra af sögunni eru dæmdir til að endurtaka hana.“ (Fréttablaðið, 28/1/2016).

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu






×