Innlent

73 kynferðisbrot framin inni á skemmtistöðum frá árinu 2005

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Miðbærinn á fullum krafti um helgarnótt. Myndin er úr safni.
Miðbærinn á fullum krafti um helgarnótt. Myndin er úr safni.

Alls voru á síðasta ári tilkynnt um 14 kynferðisbrot sem áttu sér stað í miðbæ Reykjavíkur, átta voru framin utandyra, í nálægð við skemmtistaði, í almenningsgörðum og á álíka stöðum. Alls komu sex einstaklingar á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis eftir að hafa orðið fyrir kynferðisbroti inni á eða við skemmtistaði í miðbæ borgarinnar. Frá 2005 hafa komið á Neyðarmóttökuna 73 þolendur kynferðisbrota sem voru framin inni á skemmtistöðum miðbæjarins. Árið 2009 sker sig úr en þá komu 14 þolendur á Neyðarmóttökuna eftir að hafa orðið fyrir kynferðisbroti inni á skemmtistað.

Aldrei áður hafa jafn margir leitað á Neyðarmóttökuna og á síðasta ári eða 169 einstaklingar. Á þeim 23 árum sem hún hefur verið starfrækt hafa mest leitað þangað 145 einstaklingar. Alls leituðu 37 börn á Neyðarmóttökuna, það eru yngri en 18 ára, en langflestir þolendur, eða 70, voru á framhaldsskóla- og háskólastigi, þ.e. 18-25 ára. Að meðaltali hafa 120-140 einstaklingar leitað til Neyðarmóttökunar á ári, 97 prósent þeirra eru konur.

Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri Neyðarmóttöku sem að tók tölfræðina saman fyrir ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar, segir að flest kynferðisbrot séu framin í heimahúsum þar sem einhver kynni hafa orðið á milli geranda og þolanda.

„Við erum vonandi ekki að sjá aukinn fjölda í kynferðisbrotum heldur er þjóðfélagið opnara, það er opnari umræða um kynferðisbrot og fólk veit hvert það á að leita ef það verður fyrir kynferðisofbeldi. Það skiptir máli að við fáum brotaþola til okkar og komum þeim í öryggan farveg m.t.t. líkamlegrar og andlegrar heilsu. Við erum gott teymi sem að vinnum að þessum málaflokki og setjum hagsmuni brotaþola alltaf í forgrunn þar sem að brotaþoli hefur val um hvaða þjónustu hún eða hann velur" segir hún.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Fleiri fréttir

Sjá meira