Lífið

Star Wars: The Last Jedi er í fleirtölu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rey og Luke Skywalker.
Rey og Luke Skywalker.

Erlendar þýðingar á nafni næstu Star Wars myndarinnar hafa sýnt fram á að titill myndarinnar, The Last Jedi, er í fleirtölu. Verið sé að vísa til síðustu Jedi-riddaranna en ekki síðasta Jedi-riddarans. Það er búið að reyna að lesa mikið í titil myndarinnar frá því að hann var opinberaður í janúar, en hverjir eru síðustu riddararnir?

Síðustu riddararnir eru líklegast Luke Skywalker og Rey. Í rauninni er Luke eini sanni Jedi-riddarinn sem er eftir, en þar sem þau tvö og Chewbacca eru ein á fjarlægri og lítt þekktri plánetu, Ahch-To, þykir ólíklegt að Luke muni þjálfa marga fleiri en Rey.

Mögulega gæti Kylo Ren einnig séð ljósið aftur og snúið frá myrku hliðinni. Hann var í ákveðnu basli með myrkrið í Force Awakens en ákvörðun hans að drepa pabba sinn hefur líklega fært hann að fullu yfir á myrku hliðina. Í enda Force Awakens var hann særður og á leið til Snoke sem ætlaði að ljúka þjálfun hans og hjálpar það ekki til.

Mögulegt er að fleiri persónur séu svokallaðir „force-sensitive“ og finna þar með og geta jafnvel beitt Mættinum. Þeir sem þykja sérstaklega líklegir eru Finn og jafnvel flugmaðurinn Poe Dameron. Mögulega gætu þeir orðið Jedi-riddarar, en þá þyrftu þeir að ferðast til Ahch-To og hljóta þjálfun þar, eða Luke og Rey gætu farið og gengið til liðs við byltinguna eftir að þjálfun Rey lýkur.

Þá kom fram í Force Awakens að Luke reyndi að endurreisa Jedi-regluna og þjálfa nýja riddara. Snoke og Kylo-Ren komu þó í veg fyrir það og nemendur Luke voru myrtir af Kylo-Ren og fylgisveinum hans.

The Last Jedi gæti vísað í þá sögu og mögulega fáum við að sjá meira af henni.

Með tilliti til þessa vangaveltna verður undirritaður þó að viðurkenna að það er mjög pirrandi að vera að skrifa þetta og hugsa til þess að svörin munu ekki fást fyrr en um miðjan desember.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira