Innlent

Landsréttur fer í fyrra húsnæði Siglingamálastofnunar Íslands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ætlar að leita samþykkis hjá Alþingi fyrir því að húsnæði við Vesturvör í Kópavogi hýsi Landsrétt tímabundið.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ætlar að leita samþykkis hjá Alþingi fyrir því að húsnæði við Vesturvör í Kópavogi hýsi Landsrétt tímabundið. vísir/stefán
Dómsmálaráðuneytið hefur haft til skoðunar gamla húsnæði Siglingamálastofnunar, við Vesturvör á Kársnesi í Kópavogi, sem bráðabirgðahúsnæði fyrir nýja millidómstigið, sem verður kallað Landsréttur.

Þetta staðfestir Sigríður Ásthildur Andersen dómsmálaráðherra í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta er húsnæði sem ríkið á og er autt og er ákaflega vel til þess fallið að taka við svona bráðabirgðahlutverki,“ segir Sigríður.

Í lögum um Landsrétt, sem samþykkt voru í júní á síðasta ári, kemur fram að þar muni fimmtán dómarar eiga sæti. Gert er ráð fyrir að forseti Íslands skipi dómarana samkvæmt tillögu ráðherra eftir að sérstök fimm manna valnefnd hefur fjallað um hæfi umsækjendanna.

Í dómstólalögum er kveðið á um að dómþing skuli haldið í Reykjavík nema sérstök ástæða sé til annars.

Málið kom til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í gær. Þar kynnti dómsmálaráðherra frumvarp um breytingar á dómstólalögum sem felur meðal annars í sér að valnefnd, sem fjallar um hæfi umsækjenda um störf dómara í héraðsdómi og Hæstarétti fjalli einnig um hæfi umsækjenda fyrir Landsrétt.

Landsréttur á að taka til starfa 1. janúar á næsta ári. Gert er ráð fyrir að skipun dómara verði lokið fyrir 1. júlí næstkomandi og skipunin taki gildi frá næstu áramótum. Í bráðabirgðaákvæði dómstólalaga frá 26. maí síðastliðnum er gert ráð fyrir að þeir sem skipaðir eru hæstaréttardómarar skuli hafa forgang til skipunar í embætti dómara við Landsrétt kjósi þeir það.

Sigríður Andersen sagði, daginn eftir að hún tók við ráðherraembætti, að vinnan við nýja millidómstigið væri eitt mikilvægasta verkefnið fram undan.

„Það liggur auðvitað fyrir að eitt stærsta verkefni dómsmálaráðuneytisins á þessu ári er að ljúka við undirbúning og hrinda úr vör nýju millidómstigi; landsrétti. Það er komið í alveg ágætan farveg hjá henni Ólöfu [Nordal],“ sagði ráðherrann í samtali við mbl.is. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×