Lífið

Spennandi ár framundan og hér er brot af því besta

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Stelpurnar okkar spila á EM, allir klapphöfundar landsins þurfa að fara að undirbúa sig.
Stelpurnar okkar spila á EM, allir klapphöfundar landsins þurfa að fara að undirbúa sig. Vísir/Anton BRink
Nýtt ár og nýir hlutir til að hlakka til. Á árinu verða stórtónleikar nokkuð áberandi, en nokkrar þekktar hljómsveitir eru á leiðinni til landsins, margar framhaldsmyndir fara í frumsýningu og hellingur er að gerast hjá landsliðunum okkar. Þetta verður gott ár.

Rammstein hefur selt yfir 10 milljónir platna og setið á toppi vinsældalista um víða veröld.vísir/getty
1. Fullt af tónleikum 

Árið verður risastórt hvað tónleika varðar og tónleikahátíðir. Secret Solstice verður á sínum stað og mun þetta verða stærsta hátíðin hingað til. Síðan er það Sónar og Airwaves og fleira gúmm­elaði sem er á boðstólum á hverju ári.

Allar þessar hátíðir eru í óðaönn að bóka og tilkynna listamenn þannig að beltin verða spennt hjá tónlistarunnendum í gegnum árið. Einnig verður boðið upp á stóra listamenn eins og Red Hot Chili Peppers og Rammstein fyrir þá sem vilja rifja upp gamla og góða tíma.

Hafþór Júlíus Björnsson fer með hlutverk hins ógnarsterka Gregor Clegane í Game of Thrones.
2. Nýjar þáttaraðir og gamlar góðar halda áfram 

Stærsta tilhlökkunarefnið hjá sjónvarpsáhugafólki er líklega næsta sería Game of Thrones, en það er vinsælasti sjónvarpsþáttur í heiminum í dag. Síðan kemur ný sería af hinum geysivinsælu þáttum Twin Peaks, sem öll þjóðin sat frekar ringluð yfir á sínum tíma.

Ný 24-sería þar sem Jack Bauer verður reyndar fjarri góðu gamni, Fargo heldur áfram inn í þriðju seríuna og ný Star Trek sería mun líta dagsins ljós. Nýjar og ferskar þáttaraðir sem beðið er eftir eru meðal annars Young Pope og American Gods – þættir eftir skáldsögu rithöfundarins vinsæla Neils Gaiman.

3. Allt að gerast í ­íþróttunum 

EM-kvenna í fótbolta verður á dagskrá ásamt EM-karla í körfubolta og eru íþróttaaðdáendur gjörsamlega að sturlast úr spennu enda er vera Íslands á stórmótum loksins orðinn nánast árlegur veruleiki (krossum fingur). Ætli verði fundin upp einhvers konar ný tegund af klappi í sumar eins og t.d. hreppstjóraklappið?

Fifty Shades of Grey vakti blendin viðbrögð á sínum tíma.
4. Endurgerðir, framhaldsmyndir og aðrar kunnuglegar sögur 

Nafnið verður bara „coin-að“ hér og nú – 2017 verður Ár framhaldsmyndarinnar og endurgerðanna (ekkert sérstaklega grípandi samt). Það eru nokkuð margar risaframhaldsmyndir á dagskránni en þar má kannski minnast á Trainspotting 2 – sem nær einhvern veginn að vera mitt á milli endurgerðar og framhalds, Fifty Shades Darker – framhald af hinni æðislegu Fifty Shades of Grey, Logan – næsta mynd í Wolverine-myndaflokknum, The Fate of the Furious, Guardians of the Galaxy vol. 2, Alien Covenant – framhaldið af Prometheus, Kingsman framhald, World War Z 2, ný Transformers-mynd, Despicable Me 3, War for the Planet of the Apes, Blade Runner 2049 – með tónlist frá okkar manni, Jóhanni Jóhannssyni, enn ein Thor-myndin, Pirates of the Caribbean mynd og glæný Star Wars mynd.

Síðan munum við líka sjá Lego Batman-mynd, leikna Beauty and the Beast, Power Rangers-mynd, mynd um Artúr konung, Ghost in the shell – endurgerð af einu þekktasta animé allra tíma, Baywatch-kvikmynd, Wonder Woman-mynd, einhvers konar endurgerð eða önnur tilraun við að gera The Mummy án Brendans Fraiser og Spiderman-mynd nema í þetta sinn frá Marvel.

Utanlandsferðum Íslendinga mun mögulega fækka þegar H&M opnar hér á landi, líklega ekki samt.Mynd/Getty
5. Stórar verslanakeðjur nema land

Koma þessarar blessuðu H&M verslunar er árleg frétt sem allir sturlast yfir og er komin á svipaðan stall og biðin eftir Detox, næstu sólóplötu Dr. Dre, sem hefur verið væntanleg á hverju ári síðan 2001. En þetta er loksins að fara að bresta á og kaupóðir Íslendingar ríghalda sér í tungusófana sína búnir að dúndra í hálfa millu í yfirdrátt bara til að geta fyllt fataskápana, sem þeir slógust um í IKEA, af allt of ódýrum fötum frá Bangladess.

Einnig kemur bandaríska verslunarkeðjan Costco til landsins eftir nokkrar tafir. Þar verður hægt að kaupa sér morgunkorn í risa-umbúðum og bensín í sömu ferðinni. Síðan er það bara spurningin hvenær McDonald’s kemur loksins aftur, eins og allir eru væntanlega að bíða eftir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×