Gagnrýni

Einfaldleikinn er stundum bestur

Jónas Sen skrifar
Tónlist

Kórtónleikar

Jólatónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju.

Stjórnandi: Hörður Áskelsson

Organisti: Mattias Wager

Einsöngvari: Maria Keohane

Hallgrímskirkja

þriðjudagurinn 6. desember



Sænsk jólastemning var í algleymingi á tónleikum Mótettukórs Hallgrímskirkju á þriðjudagskvöldið. Ástæðan var sú að organistinn, Mattias Wager, er sænskur, og einsöngvarinn, Maria Keohane, er það líka. Wager er sérlega snjall í að leika af fingrum fram og því var spuni áberandi á efnisskránni. Orgelspuni var oft á milli laga, og í sumum tilvikum tók kórinn þátt í spunanum. Engu að síður var prógrammið ekki aðeins einhver tilraunamennska, þarna var hefðbundin músík líka sem flutt var á virðulegan máta.

Eða hvað? Ef ég á að segja alveg eins og er þá saknaði ég þess síðarnefnda, þrátt fyrir að það hafi vissulega verið til staðar. Það var bara ekki nóg af því. Sópransöngkonan Maria Keohane var mjög ráðandi og þó hún hafi sungið glæsilega Rejoice Greatly úr Messíasi eftir Händel og annað í svipuðum dúr, voru hófsamari lög full ýkt í meðförum hennar. Tilfinningasemin var of mikil, útkoman átti það til að vera væmin. Söngkonan GERÐI of mikið í stað þess að leyfa tónlistinni að njóta sín í einfaldleika sínum.

Wager var aftur á móti með allt á hreinu við orgelið. Það sem hann spilaði var svo sem ekki krefjandi, en spunarnir hans voru skemmtilegir. Þeir tóku á sig ólíkar myndir, allt frá villtum sveitadansi yfir í fjarlægar kirkjuklukkur. Orgelið býr yfir ótal möguleikum – enda er það kallað drottning hljóðfæranna. Kannski hefði mátt vera smá einleikur á efnisskránni.



Kórinn söng fallega undir stjórn Harðar Áskelssonar, hreint og af innlifun. Spunarnir voru áhrifaríkir. Það var til dæmis dásamlegt þegar kórinn söng Hátíð fer að höndum ein um leið og hann gekk hægt inn í kirkjuna – sem leystist svo á undursamlegan hátt upp í allt annað lag. Sömuleiðis var Heims um ból í lokin magnað. En kórinn var bara í aukahlutverki á tónleikunum. Mistækur einsöngurinn var alltof áberandi, sem gerði dagskrána belgingslega. Ekkert er eins jólalegt og þegar Mótettukórinn syngur án einsöngs þekkta jólasálma. Stundum er minna meira. Það hefði mátt hafa í huga hér.

Niðurstaða:Fínn en nokkuð tilgerðarlegur einsöngur, kórinn söng hins vegar prýðilega og organistinn var góður.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. desember 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×