Körfubolti

Strákarnir ætla að horfa saman á það þegar dregið verður í riðla á EuroBasket 2017

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska körfuboltalandsliðið.
Íslenska körfuboltalandsliðið. Vísir/Ernir
Íslenska körfuboltalandsliðið er á leiðinni á sitt annað Evrópumót í röð næsta sumar og á morgun kemur í ljós hverjir verða mótherjar íslenska liðsins í Finnlandi.

Leikmenn og þjálfarar íslenska liðsins sem eru hér á landi munu hittast og horfa saman á dráttinn sem fer fram klukkan 14.00 á morgun.

Drátturinn fer fram í Istanbúl í Tyrklandi og verða fulltrúar KKÍ viðstaddir ásamt fulltrúum allra landanna 24 sem taka þátt á EM. Hefð er fyrir því að það land sem mun hýsa úrslitakeppnina sjái um dráttinn en slíkt var gert í Frakklandi fyrir árið 2015.

Fyrirfram er vitað að eftirtaldar þjóðir hafa náð samkomulagi og leika saman (gestgjafar og meðgestgjafar) og getur Ísland því ekki leikið gegn þessum þjóðum öðrum en Finnum.

Finnland og Ísland

Ísrael og Litháen

Rúmenía og Ungverjaland

Tyrkland og Rússland

FIBA Europe hefur ennfremur ákveðið styrkleikaröðun þjóða fyrir dráttinn í úrslitakeppni Evrópu mótsins í körfubolta en dregið verður í Istanbul á morgun.

Ísland er í neðsta styrkleikaflokki með Bretlandi, Úkraínu og Rúmeníu.

Samkvæmt þessu er þegar orðið ljóst að Ísland getur ekki lent í riðli með ákveðnum þjóðum. Þjóðirnar níu sem verða ekki í riðli með Íslandi eru Litháen, Króatía, Ísrael, Tyrkland, Rússland, Ungverjaland, Bretland, Úkraína og Rúmenía.

Löndin sem Ísland getur dregist í riðil með í Finnlandi eru því eftirfarandi:

1. styrkleikaflokkur: Spánn, Frakkland eða Serbía

2. styrkleikaflokkur: Grikkland, Ítalía, Tékkland eða Lettland

3. styrkleikaflokkur: (Finnland nú þegar ákveðið)

4. styrkleikaflokkur: Slóvenía eða Georgía

5. styrkleikaflokkur: Þýskaland, Belgía, Pólland eða Svartfjallaland

6.. styrkleikaflokkur: (Ísland)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×