Innlent

Kjörsókn aldrei verið minni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Frá talningu á Akureyri í nótt.
Frá talningu á Akureyri í nótt. Vísir/Sveinn

Ríkisstjórnin er fallin en ríkisstjórnarflokkarnir tveir fengu tuttugu og níu þingmenn kjörna í Alþingiskosningunum í gær af sextíu og þremur. Að minnsta kosti þrjá flokka þarf til að mynda nýja meirihlutastjórn á Alþingi.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut langflest atkvæði eða 29 prósent en Samfylkingin var nálægt því að þurrkast út af þingi með 5,7 prósent atkvæða. Kjörsókn hefur aldrei verið minni.

Frambjóðendur höfðu safnast saman á kosningavökum flokkanna og fylgdust með þegar fyrstu tölur voru birtar. Fyrstu tölur komu úr Suðurkjördæmi fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Síðustu tölur bárust hins vegar ekki fyrr um klukkan níu í morgun. Þá var ljóst að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri fallin.

Flokkarnir höfðu fyrir kosningar samtals 38 þingmenn en hafa nú 29. Björt framtíð hlaut 7,2% atkvæða, Framsóknarflokkurinn 11,5% atkvæða, Viðreisn 10,5%, Sjálfstæðisflokkurinn 29%, Píratar 14,5%, Samfylkingin 5,7% og Vinstri-grænir 15,9% en aðrir flokkar fengu 5,7% atkvæða. 

Sjálfstæðisflokkurinn fékk flesta þingmenn kjörna eða 21. Næstir komu Píratar og Vinstri grænir með 10 þingmenn hvor.  Framsóknarflokkurinn fékk átta þingmenn kjörna. Viðreisn fékk 7 þingmenn kjörna. Björt framtíð 4 en Samfylkingin 3. Allir þrír þingmenn Samfylkingarinnar eru þingmenn landsbyggðarkjördæma en og eru Oddný Harðardóttir formaður flokksins og Logi Einarsson varaformaður flokksins. 

Kjörsókn var 79,2% en það er minnsta þátttaka í alþingiskosningum frá lýðveldisstofnun en hún var 81,4% í síðustu Alþingiskosningum. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.