Lífið

Bleika slaufan í ár táknar hið mikilvæga stuðningsnet

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Þær Lovísa Halldórsdóttir og Unnur Eir Björnsdóttir eru hönnuðir Bleiku slaufunnar í ár en þær unnu hugmyndasamkeppni sem var haldin af Krabbameinsfélaginu í samstarfi við Félag íslenskra gullsmiða.
Þær Lovísa Halldórsdóttir og Unnur Eir Björnsdóttir eru hönnuðir Bleiku slaufunnar í ár en þær unnu hugmyndasamkeppni sem var haldin af Krabbameinsfélaginu í samstarfi við Félag íslenskra gullsmiða.

Þær Lovísa Halldórsdóttir og Unnur Eir Björnsdóttur eru hönnuðir Bleiku slaufunnar að þessu sinni en þær unnu hugmyndasamkeppni sem var haldin af Krabbameinsfélaginu í samstarfi við Félag íslenskra gullsmiða í apríl síðastliðnum um hönnun slaufunnar 2016. Þetta er í fimmta sinn sem Krabbameinsfélagið og Félag íslenskra gullsmiða halda samkeppni um hönnun Bleiku slaufunnar.

„Hugmyndin bak við slaufuna okkar er sú að okkur langaði að einblína á þann sem stendur manni næst þegar erfiðleikar steðja að, það er mikilvægt að eiga góða að,“ segir Lovísa. „Bleika slaufan 2016 táknar stuðningsnetið sem mikilvægast er þeim konum sem greinast með krabbamein, fjölskylduna og samfélagið,“ bætir Unnur Eir við.

Silfurslaufan er framleidd í tvö hundruð eintökum og er mikil vinna á bak við hverja.

Ástæðan fyrir því að þær Lovísa og Unnur Eir tóku þátt í samkeppninni um hönnun Bleiku slaufunnar var fyrst og fremst sú að þær langaði að styrkja gott málefni. „Okkur fannst þetta tilvalið tækifæri fyrir okkur að vinna að skemmtilegu verkefni saman en við erum vanar samvinnunni því við kynntumst í gullsmíðanáminu og útskrifuðumst saman,“ segir Unnur Eir.

Lovísa samsinnir því. „Við unnum vel og náið saman í náminu og var draumurinn sá að gera eitthvað saman í framtíðinni og þetta var tækifærið. Við vorum virkilega ánægðar með hugmyndina og þróunarstarfið okkar og vonuðumst svo innilega til þess að vera valdar.“
Spurðar hvort þær hafi átt von á því að þeirra hönnun að Bleiku slaufunni yrði valin segjast þær hafa verið mjög jákvæðar þegar þær skiluðu gripnum sínum inn en eftir því sem tíminn leið fóru þær að efast.

„Þannig að það má segja að símtalið góða hafi komið skemmtilega á óvart. Eftir jákvæðni og neikvæðni til skiptis vorum við eðlilega í skýjunum með valið og þetta fór allt að verða raunverulegt. Alls konar pælingar fóru í gang, velja rétta bleika litinn á steininum, réttu keðjuna, útlit öskju og fleira.“

Eins og margir vita eru tvær útgáfur af Bleiku slaufunni, annars vegar slaufan sem er barmnæla og hins vegar viðhafnarútgáfan sem er hálsmen úr silfri í takmörkuðu upplagi. Hönnuðirnir segjast hafa viljað ná því fram að hanna og smíða grip sem er táknrænn. „Við byrjuðum á hugmyndavinnu bæði varðandi þema slaufunnar og útlit. Margar skissur enduðu í ruslinu þar til sú rétta kom. Þá færðum við okkur yfir í framleiðsluferlið þar sem stóra spurningin var hvort hugmyndin væri gerleg. Eftir miklar pælingar og vangaveltur small þetta allt saman,“ segir Lovísa.

„Við sáum um smíði og framleiðslu viðhafnarútgáfunnar, silfur­slaufan er framleidd í tvö hundruð eintökum og er mikil vinna á bak við hverja slaufu. Við erum virkilega ánægðar með viðtökur viðhafnarslaufunnar í ár og er hún nánast að seljast upp,“ segir Unnur Eir.
„Okkur langaði að gera skartgrip sem konur munu nota áfram sem við teljum að hafi tekist og okkur finnst gaman að sjá hve margir karlmenn bera barmnæluna líka í ár,“ segja gullsmiðirnir og hönnuðir Bleiku slaufunnar í ár, þær Lovísa Halldórsdóttir og Unnur Eir Björnsdóttir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira