Enski boltinn

Zlatan: Varð sannfærður þegar "Sá sérstaki“ hringdi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Zlatan gat ekki sagt nei við Mourinho.
Zlatan gat ekki sagt nei við Mourinho. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic gekk til liðs við Manchester United í sumar frá PSG. En hann hefði getað endað á Old Trafford ári fyrr.

Zlatan og Mourinho eru miklir mátar síðan „Sá sérstaki“, eins og Mourinho er stundum kallaður, var knattspyrnustjóri Zlatans hjá Inter.

Í viðtali við Mirror segir Zlatan að Manchester United hafi sýnt honum áhuga í fyrrasumar þegar Louis Van Gall stjórnaði liðinu.

„Það var rætt um það að ég færi til United í fyrra, það er rétt. En ég trúði ekki á verkefnið, það var ekki réttur tímapunktur þá,“ sagði Zlatan en sagði að önnur staða hefði komið upp þegar Mourinho var orðinn knattspyrnustjóri Manchester United.

„Þeir fengu „Þann sérstaka“ og þegar hann hringir og byrjar að tala við þig þá verður þú sannfærður. Hann þurfti ekki að tala lengi til þess að sannfæra mig. Það var nóg fyrir hann að hringja og segja að hann biði eftir mér í Manchester og ég var á lagður af stað,“ bætti Zlatan við.

Þeir félagar Zlatan og Mourinho þekkja hvorn annan vel eftir þau tvö ár sem þeir voru saman hjá Inter. Inter varð meistari bæði árin.

„Ég veit hvað hann vill, hvaða kröfur hann setur. Hann er sigurvegari og ég lít á sjálfan mig sem sigurvegara líka. Ég myndi gera hvað sem er til þess að vinna og hann hugsar eins. Því meiri tíma sem við eyðum saman, því meiri tíma sem við æfum saman því betri verðum við,“ sagði Zlatan kokhraustur að vanda.

Zlatan hefur byrjað ágætlega hjá United á leiktíðinni og skorað fjögur deildarmörk í sjö leikjum.

„Ég trúi því að vinna skili sér, þú leggur hart að þér og færð borgað. Ef maður leggur ekkert á sig þá fær maður ekkert til baka. Ég held að 50% af þessari íþrótt sé í hausnum á þér, hugarfarið. Ef maður undirbýr sig andlega þá verður allt auðveldara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×