Innlent

Könnun MMR: Píratar og Sjálfstæðisflokkur á pari

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Litlar breytingar eru á fylgi stjórnmálaflokka samkvæmt nýrri könnun MMR. Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar njóta mest fylgis sem áður og mælist fylgi beggja flokka 22,7 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar um tæp tvö prósent á milli kannana en fylgi Pírata er því sem næst óbreytt.

Athygli vekur að Björt framtíð bætir ekki við sig fylgi en því höfðu margir spáð eftir að flokkurinn var sá eini sem tók afstöðu gegn Búvörusamningunum í atkvæðagreiðslu þann 13. september síðastliðinn. Þá var framkvæmd könnunarinnar reyndar nýhafin en hún stóð yfir frá 12. til 19. september.

Eins og sjá má á grafinu hér að neðan hafa litlar breytingar orðið frá síðustu könnun MMR. Niðurstöður hennar voru birtar 29. ágúst.

 

Fylgi Vinstri-grænna mældist 13,2% og hefur verið svotil stöðugt síðan í seinnihluta júlí þegar fylgi flokksins mældist 12,9%. Viðreisn mældist með 11,5% fylgi, sem er 2,7 prósentustigum meira en í síðustu könnun sem lauk 29. ágúst. 

Framsókn mældist með 11,0% fylgi og mældist 10,6% í síðustu könnun. Samfylkingin mældist með 8,1% fylgi, borið saman við 9,1% í síðustu könnun. Björt framtíð mældist með 4,1% fylgi, borið saman við 4,5% í síðustu könnun.

Fylgi annarra flokka mældist um og undir 2%.

Nánar á vef MMR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×