Fótbolti

Martial: EM var hörmung fyrir mig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martial átti ekki gott Evrópumót.
Martial átti ekki gott Evrópumót. vísir/getty
Anthony Martial, framherji Manchester United, er ósáttur með eigin frammistöðu á EM í Frakklandi í sumar.

Martial sló í gegn með United á síðasta tímabili en fann sig ekki á EM og spilaði aðeins 69 mínútur á mótinu.

„Þetta var mjög erfitt mót. Okkur mistókst að vinna titilinn og þjálfarinn [Didier Deschamps] notaði mig lítið - þetta var frekar mikil hörmung,“ sagði Martial.

Hann var í byrjunarliðinu Frakka gegn Albaníu í öðrum leiknum í riðlakeppninni en var tekinn af velli í hálfleik. Hann var ekki oftar í byrjunarliðinu á mótinu.

„Ég var settur á bekkinn eins og gerist. Ég er ungur og ætla að læra af þessu,“ sagði Martial sem vill ekki nota mikið leikjaálag með United sem afsökun fyrir slakri frammistöðu.

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég spilaði svona mikið fyrir mitt félagslið en það er engin afsökun. Ég hefði átt að standa mig betur.“

Hinn tvítugi Martial var í byrjunarliði Frakka í vináttulandsleik gegn Ítalíu á fimmtudaginn og þakkaði traustið með sínu fyrsta landsliðsmarki.

Það verður því að teljast líklegt að Martial haldi stöðu sinni í byrjunarliði Frakka fyrir leikinn gegn Hvít-Rússum í undankeppni HM 2018 á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×