Körfubolti

Spánverjar enn án sigurs | Litháen og Argentína byrja vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marquinhos tryggði Brasilíu sigur á Spáni.
Marquinhos tryggði Brasilíu sigur á Spáni. vísir/getty
Evrópumeistarar Spánar eru enn án sigurs eftir fyrstu tvo leikina á Ólympíuleikunum í Ríó.

Spánverjar töpuðu fyrir Króatíu á ævintýralegan hátt í 1. umferð riðlakeppninnar og í gær tapaði Spánn með einu stigi, 66-65, fyrir heimaliðinu, Brasilíu.

Marcus Vinicius Marquinhos tryggði Brasilíumönnum sigurinn þegar hann blakaði boltanum ofan í körfuna þegar 5,5 sekúndur voru eftir af leiknum. Brassar eru nú með tvö stig í B-riðli.

Skömmu áður hafði Pau Gasol, skærasta stjarna Spánverja, klikkað á tveimur vítaskotum. Gasol var í vandræðum á vítalínunni í leiknum en hann hitti aðeins úr fimm af 12 vítum sínum.

Gasol var þó stigahæstur í liði Spánar með 13 stig, auk þess sem hann tók 10 fráköst og varði fjögur skot.

Stigaskorið dreifðist vel hjá Brössum en allir leikmenn liðsins nema einn komust á blað í leiknum. Marcelinho Huertas var þeirra stigahæstur með 11 stig.

Mantas Kalnietis átti frábæran leik fyrir Litháa gegn Nígeríumönnum.vísir/getty
Litháar og Argentínumenn eru með fullt hús stiga í B-riðli.

Litháen vann Nígeríu þökk sé góðum 3. leikhluta. Nígeríumenn voru fimm stigum yfir í hálfleik, 36-41, en Litháar, sem lentu í 2. sæti á EM í fyrra, tóku völdin í 3. leikhluta sem þeir unnu 29-13. Lokatölur 89-80.

Jonas Maciulis og Mantas Kalnietis voru stigahæstir í liði Litháa með 21 stig hvor. Sá síðarnefndi gaf einnig 12 stoðsendingar.

Ike Diogu var atkvæðamestur hjá Nígeríu með 19 stig og sjö fráköst. Nígeríumenn eiga enn eftir að vinna leik á ÓL en þeir mæta Spánverjum í næstu umferð.

Argentínumenn þakka áhorfendum fyrir stuðninginn eftir leikinn gegn Króatíu.vísir/getty
Luis Scola átti frábæran leik þegar Argentína bar sigurorð af Króatíu, 90-82.

Scola skoraði 23 stig og tók níu fráköst fyrir lið Argentínu sem stóðst áhlaup Króata á lokamínútunum.

Argentínumenn, sem urðu Ólympíumeistarar fyrir 12 árum, leiddu með 17 stigum, 71-54, eftir fyrstu þrjá leikhlutana en í þeim fjórða vöknuðu Króatar til lífsins.

Þeir minnkuðu muninn í fjögur stig, 85-81, þegar rúm mínúta var eftir en Argentínumenn voru svalir á vítalínunni undir lokin og tryggðu sér átta stiga sigur.

Dario Saric, leikmaður Philadelphia 76ers, var atkvæðamestur í liði Króatíu með 19 stig, 10 fráköst og sjö stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×