Handbolti

Fyrsta tap Danmerkur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur líflegur á hliðarlínunni.
Guðmundur líflegur á hliðarlínunni. vísir/getty
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Danmörku töpuðu með þremur mörkum gegn Króatíu, 27-24, á Ólympíuleikunum í Ríó.

Danmörk hafði fyrir leikinn unnið báða sína leiki, gegn botnliðunum teimur Túnis og Argentínu, en Króatía hafði rétt marið Argentínu og tapað stórt gegn Katar.

Eftir tíu mínútna leik leiddu Króatar með þremur mörkum, 5-2, en Danirnir voru aldrei langt undan. Þegar flautað var til hálfleiks leiddi Króatía, 15-12.

Danirnir komu öflugir inn í síðari hálfleikinn og Mads Mensah jafnaði metin í 16-16 þegar fimm mínútur voru búnar af síðari hálfleik. Þá gáfu Króatar aftur í og náðu mest fimm marka forskoti, en lokatölur urðu 27-24.

Mikkel Hansen gerði átta mörk fyrir Danmörk, en sem fyrr var Domagoj Duvnjak markahæstur hjá Króatíu með átta mörk.

Liðin eru í því bæði með fjögur stig eftir þrjá leiki, í öðru og þriðja sæti, en sex lið eru í hvorum riðli. Fjögur lið fara áfram í átta liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×