Sport

Fyrsta blökkukonan til að vinna ÓL-gull í sundi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Manuel með gullið sögulega í nótt.
Manuel með gullið sögulega í nótt. vísir/getty
Nýr kafli var skrifaður í sundsöguna í nótt er fyrsta blökkukonan vann til gullverðlauna í sundi.

Það var hin bandaríska Simone Manuel sem braut niður þennan múr er hún fékk gullverðlaun í 100 metra skriðsundi.

Hún deildi þó gullverðlaununum því hin 16 ára gamla kanadíska sundkona, Penny Oleksiak, kom í mark á nákvæmlega sama tíma, 52,70 sekúndur. Þessi tími er nýtt Ólympíumet. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2000 að tveir keppendur fá gull í sama sundinu.

Manuel átti erfitt að ráða við tilfinningar sínar eftir sundið sögulega og hún grét.

„Þessi verðlaun eru ekki bara fyrir mig heldur fyrir allt blökkufólkið sem ruddi brautina fyrir mig og veitti mér innblástur. Vonandi mun ég nú veita innblástur fyrir aðra,“ sagði hin tvítuga Manuel.

„Svo virðist vera að fólk sem er með stimpilinn „svartur sundmaður“ eigi ekki að geta unnið gull eða slegið met í sundi. Það er ekki satt. Ég legg jafn hart að mér og allir hinir og elska þessa íþrótt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×