Sport

Djokovic og Williams-systur úr leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Djokovic gekk grátandi af velli.
Djokovic gekk grátandi af velli. vísir/getty
Það var enginn skortur á óvæntum úrslitum í tenniskeppni Ólympíuleikanna í gær.

Systurnar Venus og Serena Williams töpuðu í fyrsta sinn í tvímenningi á Ólympíuleikum. Þær voru búnar að vinna þrjú gull í röð en tékknesku stúlkurnar Lucie Safarova og Barbora Strycova stöðvuðu þær.

Þær tékknesku unnu leikinn í tveim settum, 6-3 og 6-4. Systurnar höfðu unnið 16 leiki í röð á Ólympíuleikum áður en kom að leiknum í gær. Þær unnu gull í Sydney árið 2000, í Peking árið 2008 og í London árið 2012. Þær voru ekki með í Aþenu árið 2004 þar sem Serena meiddist.

Hin 36 ára gamla Venus er því búin að ljúka keppni á ÓL í Ríó því hún tapaði á laugardag í einliðaleik. Hún er sögð hafa komið veik til Ríó. Serena er aftur á móti komin í næstu umferð.

Besti tenniskappi heims, Serbinn Novak Djokovic, tapaði svo mjög óvænt í fyrstu umferð gegn Argentínumanninum Juan Martin Del Potro. Del Potro hafði líka betur gegn Djokovic í undanúrslitunum á ÓL í London.

Djokovic grét er hann gekk af velli eftir tapið sem var augljóslega mjög sárt.

„Þetta er erfiðasta tapið á mínum ferli,“ sagði Serbinn.

Búið spil. Williams-systur á vellinum í gær.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×