Íslenski boltinn

FH mætir góðvinum sínum komist það áfram í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Atli Guðnason með boltann í fyrri leiknum gegn Dundalk sem endaði 1-1.
Atli Guðnason með boltann í fyrri leiknum gegn Dundalk sem endaði 1-1. vísir
FH mætir góðvinum sínum í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar komist það áfram en dregið var til þriðju umferðarinnar í höfuðstöðvum UEFA í dag.

FH spilar á móti annað hvort BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi eða SJK Seinajoki frá Finnlandi en staðan í einvígi þeirra er 2-0 fyrir BATE eftir leikinn í Hvíta-Rússlandi.

Íslandsmeistararnir þekkja vel til beggja liða en bæði FH og Valur hafa mætt BATE í forkeppni Meistaradeildarinnar og tapað. FH spilaði við SJK í forkeppni Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð og vann báða leikina, 1-0.

FH gerði 1-1 jafntefli gegn írska liðinu Dundalk í fyrri leik liðanna í annarri umferð forkeppni Meistaradeildarinnar á útivelli og er í góðri stöðu fyrir seinni leikinn á heimavelli.

Takist FH að vinna Dundalk og komast í gegnum næstu umferð er liðið öruggt með sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en það hefur verið markmið félagsins undanfarin ár.

Seinni leikur FH og Dundalk fer fram miðvikudaginn 20. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×