Fótbolti

Roy Hodgson: Ég óttast ekkert lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson gengur af velli í kvöld ásamt þeim Jamie Vardy og Deli Alli.
Roy Hodgson gengur af velli í kvöld ásamt þeim Jamie Vardy og Deli Alli. Vísir/Getty
Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, horfði upp á sína menn mistakast að landa þremur stigum í kvöld þrátt fyrir talsverða yfirburði á móti Slóvökum í lokaleik sínum í riðlakeppni EM í Frakklandi.

Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og enska liðið endaði því í öðru sæti riðilsins á eftir nágrönnum sínum í Wales sem var jafnframt eina liðið sem England vann í riðlinum.

„Það er pirrandi að vera með yfirburði í þremur leikjum en ná bara að vinna einn leik. Stuðningsmennirnir voru frábærir og það eru vonbrigði að geta ekki unnið leikinn fyrir þá," sagði Roy Hodgson við ITV eftir leikinn.

„Við getum samt ekki gert mikið meira. Við vorum miklu betri allan leikinn og fengum svo mörg færi. Einhvern daginn förum við að nýta þessu færi. Ég get ekki gagnrýnt mína leikmenn fyrir vinnusemina," sagði Hodgson.

„Þetta er samt svolítið vandræðalegt því við höfum verið í sókn alla leikina okkar og ég hefði aldrei séð það fyrir mig að við værum miklu betri í öllum þremur leikjunum.Einn daginn kemur að því að við förum að skora úr þessum færum," sagði Hodgson.

„Það eru vonbrigði að ná aðeins öðru sætinu en við erum komnir í sextán liða úrslitin og hver getur svo sem sagt að það bíði okkar eitthvað erfiðara lið. Á meðan við spilum svona þá óttast ég engan," sagði Roy Hodgson.

Enska liðið mætir liðinu sem endar í öðru sæti í F-riðlinum og það getur enn orðið Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×