Fótbolti

Freyr: Fyllum völlinn 20. september

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Alexandersson fylgist með markasúpunni í kvöld.
Freyr Alexandersson fylgist með markasúpunni í kvöld. vísir/eyþór
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er svo gott sem komið á EM 2017 eftir 8-0 stórsigur á Makedóníu á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við spiluðum þokkalega vel. Við vorum auðvitað miklu betra liðið en það er svo erfitt að spila svona leiki,“ sagði Freyr sem kvaðst einnig ánægður með mætinguna á leikinn en rúmlega 4000 manns gerðu sér ferð í Laugardalinn í kvöld.

„Við hefðum getað slegið einhver met, og auðvitað á maður að sækjast eftir því, en þetta var fínt,“ sagði landsliðsþjálfarinn sem hefur aðeins horft upp á íslenska landsliðið tapa einu sinni í síðustu 13 leikjum sínum.

„Það er meiriháttar, ég var ekki búinn að telja þetta. Eigum við ekki að halda því áfram?“

Freyr vill sjá fullan Laugardalsvöll, 20. september næstkomandi þegar Skotar koma í heimsókn í síðasta leiknum í undankeppninni. Þá verða nákvæmlega 35 ár síðan íslenska kvennalandsliðið lék sinn fyrsta landsleik, sem var einmitt gegn Skotlandi.

„Við fáum þann leik heima og það er tími til kominn að við fyllum völlinn. Við skulum gera það 20. september, öll þjóðin. Það verður toppleikur tveggja frábærra liða,“ sagði Freyr að lokum.

Nánar verður rætt við Frey í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×