Innlent

Flugvél Icelandair snúið við skömmu eftir flugtak

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Boeing 767-vél Icelandair var snúið við á leið sinni til Boston vegna bilunar í hjólabúnaði.
Boeing 767-vél Icelandair var snúið við á leið sinni til Boston vegna bilunar í hjólabúnaði. Vísir/Vilhelm
Boeing 767-vél Icelandair var snúið við á leið sinni til Boston frá Keflavíkurflugvelli eftir að mælitæki í stjórnklefanum sýndi að hjólabúnaður vinstra megin hefði ekki fest sem skyldi. Er um að ræða sömu flugvél og snúa þurfti við á leið frá Boston fyrr í vikunni vegna samskonar skilaboða frá mælitækjum.

Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, var vélin á leið til Boston frá Keflavíkurflugvelli. Skömmu eftir flugtak kom umrædd villumelding upp og var því ákveðið að snúa vélinni við og lenda henni aftur á Keflavíkurflugvelli.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd hringsólaði vélin í dágóðan tíma yfir Reykjanesi og Faxaflóa en Guðjón segir að það sé gert til þess að létta á vélinni fyrir lendingu enda hafi hún verið fullhlaðin eldsneyti.

Vélin bættist við flugflota Icelandair í maí og er um sömu vél að ræða og var ákveðið að snúa við á mánudaginn á leið frá Boston eftir að samskonar villuskilaboð komu upp á mælitækjum flugvélarinnar.

Guðjón telur að um 200 farþegar hafi verið um borð í vélinni sem mun fara í athugun eftir lendingu.

Vélin hringsólaði yfir Faxaflóa.Mynd/FlightRadar24



Fleiri fréttir

Sjá meira


×