Fastir pennar

Panamaskurðurinn

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Þjóðin horfði opinmynnt á Bjarna Benediktsson kynna nýja ríkisstjórn um daginn.

Þetta er yfirleitt prúður maður, sem lækkar röddina þegar honum rennur í skap, en þarna birtist okkur dreissugur náungi sem talaði höstuglega til blaðamanna eins og hann væri að kveða niður óhlýðni undirsáta en ekki að svara spurningum fulltrúa almennings.

Gamla Ísland

Hann virtist ævareiður yfir því að blaðamenn skyldu ekki ganga fram hver af öðrum, knékrjúpa og kyssa hring hans. Sumir sögðu að þetta væri leikrit ætlað Sjálfstæðismönnum sem dá víst svona fruntaskap og telja til marks um myndugleik; þrá svipuna.

Aðrir sögðu að úr því að Sigmundur Davíð væri á braut myndi Davíðspúkinn vera hlaupinn í Bjarna til að taka sér þar bólfestu. Og nú þyrfti prest.

Og svo voru þau sem létu sér detta í hug að hann langaði aftur heim til Flórída, en eins og kunnugt er hefur hann dvalið langdvölum í þessari paradís bandarískra eftirlaunaþega og gamalmenna; sem er dálítið eins og að vera aðalspaðinn á Kópaskeri en vera alltaf fyrir sunnan hangandi öllum stundum á Hrafnistu í Hafnarfirði. Hann var eins og selstöðukaupmaðurinn kominn heim að vitja um eignir sínar, tukta til verslunarstjórann og taka í lurginn á uppivöðslusömum óknyttapiltum áður en hann kæmist aftur heim.

Hann var að minnsta kosti afundinn og lét í veðri vaka að hann mætti eiginlega ekki vera að þessu; nennti þessu ekki. Hann var að kynna nýja ríkisstjórn. Þeir stóðu þarna tveir fulltrúar gamla Íslands og minntu okkur sigrihrósandi á að ekkert hefði breyst, ekkert ætti nokkru sinni að breytast: þungbúinn Framsóknarbúri og frekur Sjálfstæðismaður. Þeir væru óhjákvæmilegir, sjálf forlögin. Við þjóðinni blasti tvíhöfða ásjóna valdsins; tveir karlmenn, fnæsandi af bræði yfir því að þurfa að svara spurningum og iðandi í skinninu eftir því að komast burt frá þessum volaða lýð sem þeir ráða yfir – og aftur heim í skrattaskjólin.

Árangur áfram, ekkert stopp

Og við Íslendingar höfum fengið nýjan forsætisráðherra samkvæmt þeirri hefð að menn fái hér því meiri völd sem þeir njóta minni tiltrúar almennings – eru það ekki þrjú prósent landsmanna sem treysta Sigurði Inga? Fyrir hvað stendur hinn nýi forsætisráðherra þjóðarinnar? Hver er hans málstaður? Hingað til höfum við aðallega heyrt hann tala máli aflendinga.

Honum hefur tekist á undanförnum dögum að skera sig úr öðrum leiðtogum vestrænna lýðræðisríkja í einkennilega afdráttarlausri málsvörn fyrir þá sem eiga eignir í skattaskjólum og stunda starfsemi úr slíkum skúmaskotum alþjóðlegs hagkerfis.

Þegar forsætisráðherra Íslands hittir sem sé ráðamenn heimsins að máli um þetta stóra hagsmunamál samfélaganna, og er spurður um stefnu Íslands gagnvart undanskotum auðmanna mun hann væntanlega segja að íslensk stjórnvöld geri ekki athugasemd við slíkt því að flókið sé að vera ríkur á Íslandi, og einhvers staðar verði peningarnir að vera.

Málið snýst samt ekki um hann og hans persónu. Ekki heldur um hina litríku persónu Sigmundar Davíðs, þó að heillandi sé; þetta snýst um stefnu núverandi ríkisstjórnar og það ískyggilega kapp sem talsmenn hennar og ráðherrar leggja á að „ljúka málum“, og eru jafnvel farnir að hóta því að ekki verði kosið í haust eins og lofað var, nema nái fram að ganga mál ríkisstjórnarinnar. Hvaða mál? Afnám hafta? Enn hafa ekki öll kurl komið til grafar um aflandseyjatengsl og kröfueignir þeirra sérlegu trúnaðarmanna ríkisstjórnarinnar, og Sigmundar Davíðs sérstaklega, sem nú véla um afnám hafta en það er full ástæða til tortryggni og kannski er þessi ríkisstjórn einmitt sú óheppilegasta sem hugsast getur til að hafa þar hönd í bagga. Reynslan kennir okkur að trúa ekki sérstaka orðum ráðamanna en þeim mun meiri ástæða er til að ætla að hagsmunir tvinnist saman og rekist á, eins og þeir gerðu í tilviki Sigmundar Davíðs, sem enn lítur á forsætisráðherrann í sér og auðmanninn í sér sem tvo ólíka menn sem aldrei hafi hist.

Þetta snýst um stefnu. Árangur áfram, ekkert stopp. Ragnheiður Elín Árnadóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, kynnti nú um helgina áform sín um að koma Landsneti í hendur einkaaðila, þannig að allur raforkuflutningur í landinu verði þá í eigu aflendinga – eins og allt hitt. Þarna kann að minnsta kosti að vera feitan gölt að flá fyrir einhverja vel tengda auðmenn, sem myndu fljótlega sjá til þess að hámarksarður yrði á starfseminni og jafnharðan komið fyrir í aflandinu góða, fjarri þessari veiðistöð hér.

Þetta er stefnan. En hann gín við valdastéttinni Panamaskurðurinn sem opnaðist svo óvænt og skyndilega, þökk sé Jóhannesi Kr. Kristjánssyni og samverkafólki hans. Þessi skurður á eftir að víkka og breikka og kannski verður hann til þess að aflendingar missa hér ítök og fljóta burt á sínum flekum og mun þá sannast það sem segir í Njálu: Illt er að vera á ólandi alinn.






×