Lífið

Pappírsskutlan hélt að hún væri búmerang

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Gleðin var einlæg.
Gleðin var einlæg.

Japanir hafa löngum verið þekktir fyrir það að ná langt á sviðum sem aðrir hafa ekki lagt mikla vinnu í að skara fram úr á. Eitt þeirra sviða er pappírsskutlugerð enda höfðu Kínverjar og Japanir forskot á aðrar byggðir heimsins í upphafi.

Fyrir skemmstu smíðaði Japaninn Ikuya Hara skutlu og náði skrambi góðu kasti sem eflaust fáir, ef einhverjir, hafa náð á undan honum. Kastinu deildi hann á Twitter svo heimsbyggðin gæti notið þess með honum. Svo virðist nefnilega vera að skutlan hafi misskilið hlutverk sitt og talið sig vera búmerang. Í það minnsta hegðar hún sér sem slík. Þó má gera ráð fyrir að vindur hafi haft talsverð áhrif.

Þrátt fyrir að skutlan hafi svifið lengi, og ferill hennar verið helst til óvenjulegur, þá á Hara enn langt í land með að ná heimsmeti landa síns, Takuo Toda, yfir lengsta flug pappírsskutlu í heimi. Sérstök, og nánast einstök, hönnun Toda gerði það að verkum að skutla frá honum sveif í 27,9 sekúndur árið 2009 og stendur það met enn.

Áhugasamir geta skoðað myndbandið af kasti Hara hér fyrir neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira