Innlent

Ríkið hyggst leggja meira fé til reksturs hjúkrunarheimila

Atli Ísleifsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Vísir/Pjetur

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra telur rök standa til þess að auka fjármagn til reksturs hjúkrunarheimila á þessu ári. Viðræður standa nú yfir um gerð þjónustusamninga við rekstaraðila hjúkrunarheimila sem rekin eru á daggjöldum.

Í frétt á vef velferðarráðuneytisins segir að ríkisstjórnin samþykkti í dag að fela ráðherrum heilbrigðis- og fjármála að ræða við aðilana um mögulega styrkingu á rekstrargrunni heimilanna.

Ná vonandi niðurstöðu sem fyrst
Kristján Þór segir að þótt eflaust megi lengi deila um hve há daggjöld til hjúkrunarheimila þurfi að vera sé orðið alveg ljóst í hans huga að það verði að styrkja rekstrargrunn þeirra frá því sem nú er.

„Við verðum að finna þessum rekstri grundvöll með samningum þar sem skilgreint er hvaða þjónustu þessi heimili eiga að veita. Þar með höfum við jafnframt miklu betri og raunhæfari forsendur til að meta hve mikla fjármuni þarf til að standa undir þjónustunni. Fulltrúar okkar fjármálaráðherra munu koma að þessum viðræðum með Sjúkratryggingum Íslands og vonandi fáum við niðurstöðu í málið sem fyrst,“ segir Kristján Þór.

Viðkvæm fjárhagsstaða
Í frétt ráðuneytisins segir að viðkvæm fjárhagsstaða og þungur rekstur einkenni rekstrarumhverfi flestra hjúkrunarheimila, þótt staða einstakra heimila sé misjöfn.

„Samkvæmt skýrslu sem Ríkisendurskoðun skilaði Alþingi í nóvember 2014 um rekstur og afkomu hjúkrunarheimila árið 2013 nam samanlagður halli hjúkrunarheimila 4,66% að jafnaði þrátt fyrir að þriðjungur heimilanna skilaði jákvæðum rekstri.

Ekki er ljóst hvað veldur breytilegri rekstarafkomu og virðist hvorki stærð heimilanna né hjúkrunarþyngd íbúa á heimilunum vera fullnægjandi skýring. Það liggur þó fyrir að breyting sem gerð var á fyrirkomulagi mats á þörf fólks fyrir búsetu á hjúkrunarheimili árið 2008, samhliða hlutfallslegri fjölgun aldraðra, hefur leitt til þess að þeir sem fara inn á hjúkrunarheimili eru mun veikari en áður var og hjúkrunarþyngd íbúanna mælist að meðaltali töluvert hærri en áður,“ segir í fréttinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira