Innlent

Vilja að föngum verði óheimilt að fara í klefa annarra

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. vísir/heiða

Allsherjar- og menntamálanefnd vill að föngum í lokuðum fangelsum verði óheimilt að fara inn í fangaklefa annarra fanga, eftir að hafa fengið upplýsingar um að ofbeldi meðal fanga væri töluvert. Nefndin segir fanga ekki leggja fram formlega kvörtun eða kæru til lögreglu sökum hræðslu.

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði fram breytingartillögu við frumvarp til laga um fullnustu refsinga á Alþingi á dögunum. Þar er meðal annars lagt til að föngum í lokuðum fangelsum verði óheimilt að fara inn í fangaklefa annarra fanga. Hins vegar geti forstöðumaður í samráði við Fangelsismálastofnun vikið frá reglunni ef sameiginleg rými í fangelsinu eru ekki fullnægjandi eða málefnalegar ástæður mæla með því.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segist fagna þessari afstöðu nefndarinnar.
„Við erum mjög ánægð með þessa afstöðu nefndarinnar. Það er einfaldlega eitt af okkar meginhlutverkum að tryggja öryggi fanga og þessi breyting mun hjálpa í þannig. Það er þannig að ofbeldi fyrirfinnst í fangelsum eins og annars staðar í samfélaginu og við gerum það sem við getum til þess að hindra það og svo stoppa af þegar það kemur upp og þessi tillaga er frá okkur komin. Hún skiptir miklu máli og við erum mjög ánægð," segir hann.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar segir að fangelsisyfirvöldum hafi ítrekað verið tilkynnt um barsmíðar og annað ofbeldi meðal fanga án þess að viðkomandi hafi viljað leggja fram formlega kvörtun eða kæru til lögreglu vegna hræðslu.

„Við höfum heyrt af þessu en eins og ég segi það er eðlilegt að það gerist í fangelsum eins og annars staðar. En það er okkar þá að gera það sem við getum til þess að gera umhverfið öruggt," segir Páll.

Þá segir jafnframt í álitinu að fyrir liggi upplýsingar um að fangar hafi farið í klefa annarra fanga og tekið þaðan verðmæti ófrjálsfri hendi. Nefndin bendir á að eitt meginhlutverk fangelsisyfirvalda sé að tryggja öryggi fanag á meðal afplánun stendur, og því sé það mat hennar að með því að leyfa föngum að vera í eftirlitslausum í klefum hvers annars geti öryggi þeirra verið stefnt í voða.

Réttarhöld yfir föngunum Annþóri Karlssyni og Berki Birgissyni fóru fram í byrjun árs, en þeir eru sakaðir um að hafa veist með ofbeldi að öðrum fanga á Litla-Hrauni sem hafi leitt til dauða hans. Þess er beðið að dómur verði kveðinn upp, en saksóknari hefur farið fram á allt að tólf ára fangelsi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira