Íslenski boltinn

Finnur Ólafsson að semja við Þrótt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Finnur Ólafsson í leik með Víkingi síðasta sumar.
Finnur Ólafsson í leik með Víkingi síðasta sumar. vísir/andri marinó

Fótboltamaðurinn Finnur Ólafsson skrifar nú klukkan 13.00 undir eins árs samning við nýliða Þróttar í Pepsi-deild karla.

Finnur kemur til Þróttar frá Víkingi, en hann hefur áður spilað með uppeldisfélagi sínu HK, ÍBV og Fylki í efstu deild.

„Það var of mikið að gerast hjá Víkingum sem mér líkaði ekki. Maður getur vælt og vælt og sagt að allt sé öllum öðrum að kenna en maður verður líka að líta í eigin barm,“ segir Finnur í samtali við Vísi um ákvörðunina að skipta um félag.

„Ég skil í góðu við Víkingana. Þetta er algjör topp klúbbur og ég óska Víkingum alls hins besta. Þarna eru yndislegir strákar en þetta samstarf bara gekk ekki.“

Finnur á að baki 125 leiki í efstu deild. Hann spilaði 15 leiki fyrir Víking í Pepsi-deildinni í fyrra, þar af var hann níu sinnum í byrjunarliði.

Hann kveðst spenntur fyrir nýju ævintýri með nýliðum Þróttar sem spila í fyrsta sinn síðan 2009 á meðal þeirra bestu í sumar.

„Ég er alveg ótrúlega spenntur og líka bara spenntur fyrir því að fara í rautt og hvítt aftur,“ segir HK-ingurinn.

Þróttarar hafa ekki verið að gera neinar rósir á undirbúningstímabilinu og töpuðu síðast 2-0 fyrir Fjölni í Lengjubikarnum í gærkvöldi. Finnur hefur engar áhyggjur af því.

„Þegar ég var ÍBV tókum við ekki stig eitt undirbúningstímabilið af Pepsi-deildarliðum en vorum svo í titilbaráttu í lokaumferð deildarinnar. Ég minnist bara þess tíma og veit alveg að við í Þrótti getum gert eitthvað flott í sumar,“ segir Finnur Ólafsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira