Fastir pennar

Snerting er stórmál

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Tvær fréttir voru í Stundinni af meintum tilburðum tveggja ólíkra karlmanna við að nálgast konur. Annars vegar er um að ræða nafnlausar ásakanir um óljóst athæfi og erfitt að átta sig á málavöxtum; hins vegar segir frá kunnum miðaldra lögmanni sem reynir mikið við táningsstúlkur af greininni að dæma. Ég hef ekki forsendur til að dæma mennina né vil ég afsaka þá hegðun sem þeir eru sakaðir um. Það fer hins vegar ekki hjá því að það vakni hjá manni alls konar hugrenningatengsl við lesturinn.

Við getum sagt sem svo að óþarfi sé að gera svo mikið veður yfir því – og nánast gera glæpsamlegt – að karlar reyni við konur. Ekkert sé náttúrulegra; gott ef þetta sé ekki beinlínis lífsins gangur.

Lífsins tilgangur: tildragelsi og misvel lukkaðir tilburðir til tildragelsis. Um þetta fjalla skáldsögurnar, ljóðin, já hvert einasta popplag.

En kynferðisleg áreitni er samt menningarlegt vandamál, ekki bundið við einstaklinga og sérstaka skapgerðarbresti. Þetta er ekki einskær vandi þeirra sem verða fyrir barðinu á áreitninni og ekki bara í verkahring þeirra að ræða um það; þetta er ekki óviðráðanlegur sjúkdómur eða stundarbilun heldur hegðun sprottin af ranghugmyndum og virðingarleysi fyrir mannhelgi annarra. Ranghugmyndirnar og virðingarleysið eru ekki meðfæddir eiginleikar heldur lærð hegðun.

Kynferðislegt ólæsi

Mannfélagið er samansett úr ótal litlum og stórum boðum sem við sendum hvert öðru, á misjafnlega sýnilegan máta. Bara ein lítil sjónvarpsauglýsing geymir margvísleg boð, bæði augljós og leynd; þau augljósu snúast um tiltekin vörumerki sem tengd eru við örvun á hvötum okkar en þau leyndu leiðbeina um lífsstíl og hegðun. Það hvernig okkur farnast í lífinu er sumpart undir því komið hversu slyng við erum í meðferð þessara boða sem streyma daglega í þúsundavís um allt samfélagið.

Þegar tvær manneskjur tala saman nota þær orð til að skiptast á skoðunum. En samskiptin einskorðast ekki við það. Við notum líka ótal önnur boð sem miserfitt er að ráða í og eru misvel útfærð og misjafnlega meðvituð: hreyfingar, augnaráð, stellingar, svipbrigði, raddblær.

Kannski laðast tvær manneskjur hvor að annarri og þá gefa þær hvor annarri margvísleg boð um það, eiga í þöglum samningaviðræðum um það hvernig væntanlegum samskiptum skuli háttað, með líkamstjáningu og fasi. Umræðuefnið gæti verið forsetakosningar eða áfengi í matvöruverslunum, en undir yfirborði þess fer fram samræða um þá hluti sem raunverulega skipta máli: Hvernig líkar þér við mig? Eigum við að snertast? Og svo er hitt: kannski laðast einn aðili að öðrum og sendir boð um það en fær kurteislega höfnun til baka – og þá er hægt að einbeita sér virkilega að forsetakosningunum eða víninu í matvörubúðunum.

Þetta er heillandi leikur og samspil einstaklinga sem þarna fer fram, jafn náttúrulega og eðlilega og blóm opnast og alda rís og hnígur. Þetta er dans. Og það verður að stíga hann saman til að vit sé í honum. Annars er bara verið að troða um tær. Það þarf með öðrum orðum að vera læs á boðin. Og það erum við raunar flest, nema reyndar fólk með asperger-heilkenni; við höfum einfaldlega í hausnum allan staðalbúnað til að vinna úr þessum boðum og bregðast við þeim.

Vandamálið er fremur hitt: að taka mark á þessum boðum og virða þau.

Káföld

Í okkar menningu hefur löngum viðgengist einkennilega mikið ólæsi á þessi samskiptaboð eða hirðuleysi um þau og umburðarlyndi gagnvart þeim sem virða þau að vettugi. Kannski af því að við erum komin af fólki sem kúldraðist lengstan part ársins inni í myrkum moldarkofum og sá varla hvert annað nema rétt yfir hábjargræðistímann þegar enginn mátti vera að neinu öðru en að strita í heyskap. Hjá okkur hefur gegnum aldirnar verið lítið um áðurnefndan dans en þeim mun meira um margvísleg glímutök með öllum sínum sniðglímum á lofti og bolabrögðum.

Í Ljósvetningasögu segir frá þeim bræðrum Sölmundi og Söxólfi sem voru „óeirðarmenn miklir um kvennafar“ og talað um „bóndadætur“ sem urðu fyrir barðinu á þeim en þær ekki nefndar á nafn fremur en þrælarnir og hvað þá að taki því að hafa orð á því hvernig þeim þótti að verða fyrir öllu þessu „kvennafari“. (Þegar kona er loks nafngreind í sögunni, Þórdís dóttir hins samkynhneigða Guðmundar ríka, fær hún að vísu að segja fegurstu setningu sögunnar: „Nú er mikið um sólskin og sunnanvind og ríður Sörli í garð.“) Þó að bræðranna sé ekki getið að góðu í sögunni hefur orðalagið lifað – og ekki síður athæfið sjálft: að koma fram við konur eins og viljalaus viðföng kvennafarsins.

Í mínu ungdæmi var mikil káföld; þegar mannsbragur þótti að því að þukla líkamsparta einstaklinga sem ekki voru taldir geta varið sig; kvenna og barna. Landsfrægir voru kátir karlar sem króuðu af konur í afviknu skoti og réðust til atlögu leiftursnöggt, reyndu að lama fórnarlambið og merkja sér það með yfirgripsmiklu káfi.

Íslensk menning. Þetta þótti kannski ekki alveg gott, eiginlega frekar spaugilegt. Það var látið eins og við þessu væri ekkert að gera; svona væri þetta bara – karlar hefðu sína náttúru og hún brytist fram með þessum hætti. En þannig er það auðvitað ekki. Það er ekki til neitt lögmál sem framkallar slíkt framferði. Þetta er lærð hegðun.

Það er stórmál að snerta aðra manneskju.






×