Innlent

Útlit fyrir rólega daga veðurlega séð

Birgir Olgeirsson skrifar

Útlit er fyrir rólega daga veðurlega séð eftir nokkra daga með hvössum vindi og ofankomu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Er gert ráð fyrir hægum vindi næstu daga og úrkomulitlu veðri, en þó eru líkur á að snjókomubakki komi upp að suður- og vesturströndinni á fimmtudag.

Frost inn til landsins gæti skriðið eitthvað niður fyrir 10 til 12 gráður, en mildara verður við ströndina og sums staðar frostlaust á köflum, einkum við ströndina suðvestan – og sunnan til.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag:
Hæg suðlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað en skýjað með köflum um landið suðvestanvert. Frost 2 til 12 stig, kaldast norðaustantil en hlánar við suðvestur ströndina um kvöldið.

Á fimmtudag:
Austlæg átt 3-10 m/s og skýjað með köflum en bjartviðri norðaustanlands. Dálítil él við suðaustur ströndina en snýst í hæga vestlæga átt með snjókomu eaða slyddu suðvestantil undir kvöld. Frost 1 til 10 stig.

Á föstudag og laugardag:
Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað með köflum eða bjartviðri en stöku él við ströndina. Talsvert frost.

Á sunnudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt og snjókomu suðvestantil síðdegis en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hlýnandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira