Innlent

Eigandi Gullsmiðjunnar um ránið: „Þetta var mjög ógnvekjandi“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Gullsmiðjan stendur við Lækjargötu í Hafnarfirði.
Gullsmiðjan stendur við Lækjargötu í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

„Ég þarf að horfa upp eftir hendinni þar sem ég sé að hann er með exi,“ sagði Guðrún Bjarnadóttir, eigandi Gullsmiðjunnar, um rán í versluninni síðastliðið haust þegar hún bar vitni í máli gegn þremur körlum í Héraðsdómi Reykjaness í dag. „Þetta var mjög ógnvekjandi. Hann ýtir í hendina á mér og segir mér að leggjast.“

Guðrún segir að hún hafi séð í öryggismyndavél að lágvaxinn maður væri fram í búðinni að brjóta sér leið að skartgripum. „Það er smá glufa og mér finnst ég geta hlaupið út, sem ég geri,“ sagði hún.

Fyrst ætlaði hún að hlaupa inn á fasteignasölu í nágrenninu, en þar voru allir farnir. Hún fór þá inn í stigagang og hringir öllum bjöllum, því næst ætlar að hún að reyna að stoppa bíl, en fer svo aftur inn í annan stigagang og reynir að sækja hjálp. Á þessum tíma hafi hún heyrt bíl aka burt með ofsalegum hætti og hún sér grímuklæddu mennina bruna í burtu.

Sjá einnig: Segir skartgriparánið hafa verið „skyndiákvörðun“

Hafði séð hann áður í búðinni
Þegar hann er að öskra í annað sinni og skipaði henni að leggjast þá hafi teygst á lambhúshettunni og hún hafi séð andlit hans og þekkt hann.

„Hann kom í búðina á föstudeginum 22. september,“ sagði hún. „Hann var alveg 10-11 mínútur inn í búðinni.“ Guðrún sagðist vera 100 prósent viss um að hún hafi séð sama manninn í búðinni þann dag og í ráninu. „Ég þekkti augun, ég þekkti augabrúnirnar og hárið.“

Guðrún segir að einu skilaboðin sem hún hafi fengið frá grímuklædda manninum hafi verið að hún ætti að leggjast í gólfið. „Hann ýtti aðeins við mér til að ítreka „niður“,“ segir hún aðspurð um hvort henni hafi verið hótað.

Fékk áfallahjálp í kjölfar ránsins
Eftir atvikið hefur Guðrún þurft að leita sér aðstoðar eftir ránið. „Ég fékk áfallahjálp,“ segir hún og bætti við að hún hefði haft gott af því. „Það koma ágætir kaflar á milli og svo koma bara kaflar þar sem er erfitt að hafa lent í þessu,“ segir hún. Búðin er áfram í rekstri en atvikið hefur haft áhrif á hennar daglegu störf í búðinni. „Ég er mjög oft með læst.“

„Ég tók myndir af öllu og gat nánast gat sagt hvað verðmætið var mikið,“ sagði hún. „Í ráninu þá var það 1.950 þúsund og í innbrotinu var það eitthvað um 1.100 þúsund.“ Skartgripina hefur hún fengið bætta en ekki skemmdir sem unnar voru í versluninni í ráninu.

Guðrún sagði að Axel hafi elt sig úr versluninni. „Svo lemur hann, það sést í myndavélinni, þegar hann er að elta mig lemur hann exinni í afgreiðsluborðið,“ svaraði hún verjanda Axels um hvort hann hafi elt hana úr versluninni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira