Innlent

Birgitta segir átakanlegt að hlusta á þvætting Sigmundar sem gagnrýnir flokkinn fyrir stefnuleysi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Enn bíðum við eftir fyrsta stefnumálinu frá Pírötum,“ sagði forsætisráðherra á þingi í dag.
„Enn bíðum við eftir fyrsta stefnumálinu frá Pírötum,“ sagði forsætisráðherra á þingi í dag. Vísir

Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, segir átakanlegt að hlusta á þvættingin úr munni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra en ráðherrann hafði skömmu áður sagt Pírata stefnulausa.

Spurði um verðtrygginguna
Upphaf orðaskiptanna voru fyrirspurn Birgittu um gang afnáms verðtryggingarinnar en hún notaði tækifærið til að leiðrétta rangfærslur forsætisráðherrans í ræðu á Viðskiptaþingi þar sem hann gagnrýndi hugmyndir um borgaralaun.

„Staðreyndin er sú að píratar hafa ekki mótað stefnu um borgaralaun,“ sagði hún og bætti við að varaþingmaður flokksins hefði einfaldlega lagt fram þingsályktunartillögu að það yrði skoðað með hvaða hætti væri hægt að tryggja landsmönnum skilyrðislausa grunnframfærslu.

Enn beðið eftir stefnu
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra byrjaði á að gagnrýna Pírata og sagði þá stefnulausa en hann svaraði ekki spurningunni um afnám verðtryggingarinnar. 

„Akkúrat þegar maður hélt að loksins væri komið eitthvað mál frá pírötum þar sem þeir væru að skýra stefnu eða boða stefnu þá kemur á daginn að svo er ekki. Þetta er ekki stefna, þetta er bara til skoðunar. Það á bara að kanna hvort hungsanlega sé þetta sniðugt, þannig að enn bíðum við eftir fyrsta stefnumálinu frá Pírötum,“ sagði hann.

Birgitta svaraði og sagði: „Það er átakalegt að hlusta á þvættingin úr munni forsætisráðherra.“ Spurði hún þá einnig út í gang afnáms hafta og húsnæðisfrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra. Sigmundur sagði að þau mál gengju ljómandi vel.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira