Fótbolti

Balotelli gæti verið búinn að spila sinn síðasta leik fyrir AC Milan

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mario Balotelli aftur kominn í vandræði?
Mario Balotelli aftur kominn í vandræði? vísir/getty

Mario Balotelli gæti verið búinn að spila sinn síðasta leik fyrir AC Milan, en hann átti skelfilegan dag í sigri liðsins gegn Genoa um helgina.

AC Milan vann leikinn, 2-1, með mörkum Carlos Bacca og Keisuke Honda, en Balotelli var gagnrýndur af þjálfara sínum Sinisa Mihajlovic fyrir að leggja sig ekki nógu mikið fram.

Þjálfarinn ýjaði að því í viðtali eftir leik að Balotelli og fleiri sem höfðu takmarkaðan áhuga á að spila leikinn um helgina komi ekki aftur við sögu hjá Mílanóliðinu.

„Við þurftum að vinna og við gerðum það,“ sagði Mihajlovic eftir leikinn. „Þetta var aldrei í hættu.“

„Við áttum að skora þriðja markið og ekki vera í þessu stressi undir lokin. En þetta er líka mér að kenna og þeim leikmönnum sem lögðu sig ekki fram. Þeir sem fórnuðu sér ekki fyrir liðið fram á 94. mínútu munu ekki stíga fæti út á völlinn framar.“

„Það var ekki bara Balotelli. Það voru tveir til þrír til viðbótar. Þeir vita upp á sig skömmina,“ sagði Sinisa Mihajlovic.
Fleiri fréttir

Sjá meira