Innlent

Má ekki bera vitni gegn meintum nauðgara sínum í Barnahúsi

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá Barnahúsi.
Frá Barnahúsi. Vísir/Valli

Andlega fötluð ung kona fær ekki að gefa skýrslu í Barnahúsi í máli ríkissaksóknara gegn manni sem gefið er að sök að hafa nauðgað henni og áreitt kynferðislega. Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis.

Manninum er í ákæru gefið að sök að hafa nýtt sér andlega fötlun ungu konunnar þegar hann hafði með henni kynferðismök og káfaði á kynfærum hennar í fjögur skipti snemma árs 2013.

Konan er þroskaskert og í mati geðlæknis sem liggur fyrir dómi segir að hún sé á ýmsan hátt barnaleg. Greindarvísitala hennar sé í kringum 70 og hún sé með töluverða skerðingu á minni. Aldur konunnar hefur verið útmáður úr úrskurði héraðsdóms sem birtur var á netinu í dag en í kröfu réttargæslumanns hennar segir að umönnunaraðilar telji þroska hennar á við sex eða sjö ára barn.

Réttargæslumaður konunnar óskaði eftir því að skýrslutaka af henni færi fram í Barnahúsi en líkt og fyrr segir var því hafnað. Meginregla sakamálalaga er sú að öllum sem eru orðnir fimmtán ára er skylt að koma fyrir dóm nema þeir komist ekki vegna veikinda eða svipaðra aðstæðna.

Litið var til þess að hinn ákærði hefur samþykkt að víkja úr dómsal á meðan hún gefur skýrslu, þinghald sé lokað og fallist hafi verið á að bæði réttindagæslumaður konunnar og systir hennar verði henni til halds og trausts í dómsal. Þannig hafi verið reynt að koma til móts við þarfir hennar um þægilegt og öruggt umhverfi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira