Fótbolti

Breiðablik og Fjölnir halda áfram að moka inn milljónum vegna Alfreðs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason er gullkálfur fyrir Fjölni og sérstaklega Breiðablik.
Alfreð Finnbogason er gullkálfur fyrir Fjölni og sérstaklega Breiðablik. vísir/getty
Fjölnir og Breiðablik, knattspyrnufélögin sem landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason ólst upp hjá, halda áfram að moka inn milljónum vegna uppeldisbóta á sölum Alfreðs Finnbogasonar út um alla Evrópu.

Þau eru svo heppinn að Alfreð hefur verið á ferð og flugi um álfuna á undanförnum árum, en hann samdi við Augsburg í Þýskalandi undir lok félagaskiptagluggans í janúar, en þýska liðið er sjötta atvinnumannalið landsliðsframherjans í sjötta landinu.

Sjá einnig:Alfreð á stall með Eiði Smára

Aðeins eru greiddar uppeldisbætur ef leikmenn færa sig á milli landa og það á við um Alfreð sem fór nú frá Spáni til Þýskalands. Þýska liðið FC Augsburg borgaði Real Sociedad fjórar milljónir evra, samkvæmt heimildum Vísis, fyrir íslenska landsliðsframherjann sem nemur ríflega 567 milljónum íslenskra króna.

Félag sem kaupir leikmann á milli landa hefur einn mánuð frá sölu til að gera upp við uppeldisfélög viðkomandi leikmanns og eru íslensku félögin á lokastigi í uppgjöri við Augsburg, samkvæmt heimildum Vísis.

Fjölnir fær eitt prósent af þeirri upphæð þar sem hann var í röðum Fjölnis frá tólf til fimmtán ára aldurs, en 0,25 prósent fæst fyrir hvert ár á þeim aldri. Alfreð var svo í Breiðabliki frá því hann var 16 ára og þar til hann fór út til Lokeren 21 árs gamall, en 0,50 prósent fæst í uppeldisbætur fyrir hvert ár eftir 15 ára aldurinn.

Breiðablik á því þrjú prósent í hverri sölu Alfreðs á milli landa og fær í sinn hlut rétt ríflega 17 milljónir króna fyrir sölu Alfreðs til Augsburg en Fjölnir fær tæplega 5,7 milljónir króna. Lokeren á eitt prósent þar sem Alfreð var þar þegar hann var 22 og 23 ára og fær því sömu upphæð og Fjölnir.

Real Sociedad borgaði sjö og hálfa milljón evra fyrir Alfreð þegar hann varð markakóngur með Heerenveen í Hollandi 2014, en það jafngildir rétt ríflega einum milljarði króna.

Fjölnir og Lokeren fengu þá ríflega 10,6 milljónir króna en Breiðablik tæpar 32 milljónir króna. Íslensku félögin eru því samtals búin að fá rétt ríflega 65 milljónir króna í uppeldisbætur fyrir Alfreð á undanförnum tveimur árum.

Skipting uppeldisbóta vegna sölu Alfreðs frá Sociedad til Augsburg:

Söluverð: 567.480.000

Félag: Hlutfall - Fjárhæð á lið

Fjölnir: 1% - 5.674.800 kr.

Breiðablik: 3% - 17.024.400 kr.

Lokeren: 1% - 5.674.800 kr.

Skipting uppeldisbóta vegna sölu Alfreðs frá Heerenveen til Real Sociedad:

Söluverð: 1.064.025.000

Félag: Hlutfall - Fjárhæð á lið

Fjölnir: 1% - 10.640.250 kr.

Breiðablik: 3% - 31.920.750 kr.

Lokeren: 1% - 10.640.250 kr.


Tengdar fréttir

„Stundum spurt mig hvers vegna ég sé að þessu“

Alfreð Finnbogason hefur upplifað rosalega góða tíma og alls ekki svo góða á fimm árum í atvinnmennsku. Þrátt fyrir að spila lítið með landsliðinu finnst honum hann vera hluti af hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×