Innlent

SÁÁ slæst við SÍ fyrir dómi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
SÁÁ segir að áður en samið var við ríkið í desember 2012 hafi í áratugi verið rekið meðferð fyrir sjúkratryggða á án árekstra við stjórnsýslu og fjárveitingarvald.
SÁÁ segir að áður en samið var við ríkið í desember 2012 hafi í áratugi verið rekið meðferð fyrir sjúkratryggða á án árekstra við stjórnsýslu og fjárveitingarvald. vísir/heiða
Fjárveitingar Alþingis vegna þjónustu göngudeildar SÁÁ hafa ekki skilað sér að mati samtakanna. SÁÁ hefur stefnt ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna meintra vanefnda Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) á samningi sem gerður var í desember 2012 um þjónustu göngudeildarinnar.

„Fjárveitingar frá Alþingi til SÁÁ taka mið af þessum samningi sem ráðherra hefur staðfest en með honum var gert ráð fyrir 43 milljóna króna árlegri greiðslu til þeirrar þjónustu SÁÁ sem þar er kveðið á um,“ segir í umfjöllun SÁÁ. „Frá því samningurinn tók gildi hefur hlutur SÍ í rekstrarkostnaði hins vegar minnkað úr 43 milljónum króna árið fyrir gildistöku samningsins, í 27 milljónir króna árið 2013, í 17 milljónir króna árið 2014 og í núll krónur árið 2015.“

Fram kemur að á síðasta ári hafi rekstrarkostnaður göngudeildarinnar numið 76 milljónum króna. „Vegna deilunnar við Sjúkratryggingar Íslands greiðir SÁÁ niður með sjálfsaflafé sínu þann hluta af kostnaðinum sem greiða ætti með framlagi Sjúkratrygginga. SÁÁ axlar þær byrðar að svo stöddu en hins vegar er ljóst að samtökin munu ekki til lengdar geta staðið undir óbreyttum göngudeildarrekstri á eigin kostnað.“

Framtíð göngudeildarþjónustunnar er sögð ráðast af framgangi dómsmálsins. Til þess hafi verið höfðað eftir árangurslausar innheimtutilraunir. SÁÁ býst við að aðalmeðferð í málinu fari fram á næstu vikum, en næsta fyrirtaka í málinu er átjánda þessa mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×