Innlent

"Þetta fólk er allt gagnrýnið á samfélagið en sér ekki siðleysið í eigin vinnubrögðum“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ásmundur vill að Alþingi úthluti listamannalaunum.
Ásmundur vill að Alþingi úthluti listamannalaunum. vísir/pjetur

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir tíma til kominn að endurskoða þær reglur sem gilda um úthlutun listamannalauna. Hann lýsir þungum áhyggjum af þróun úthlutunarinnar undanfarin ár og leggur til að Alþingi fái úthlutunarvaldið. Listamenn og samtök þeirra hafi með vinnubrögðum sínum fyrirgert rétti sínum til að þeim sé treystandi til að sjá um úthlutun listamannalauna.

„Það er eðlilegt að þjóðin ræði hvernig staðið er að úthlutun listamannalauna. Er það til dæmis eðlilegt að stjórn Rithöfundasambandsins velji úthlutunarnefndina og síðan úthlutar sú stjórn allri sitjandi stjórn Rithöfundasambandsins listamannalaunum til tólf mánaða? Þannig hefur það verið jafnvel árum saman. Er eitthvað eðlilegt við það?,“ sagði hann á Alþingi í dag.

„Er það að sama skapi eðlilegt að Listaháskólinn skipi fulltrúa í úthlutunarnefnd og ár eftir ár eru kennarar skólans á listamannalaunum. Þetta fólk er allt gagnrýnið á samfélagið en sér ekki siðleysið í eigin vinnubrögðum. Eigum við ekki að breyta því saman, er ekki kominn tími til þess?“

Þjóðin á rétt á opinberum rökstuðningi
Ásmundur sagði listamenn verða að þola þegar rætt sé um þeirra mál, sem séu í algjörum molum. Ekki sé boðlegt hvernig rithöfundar og fagfélag þeirra skipi sjálft sitt fólk í úthlutunarnefndir.  Hann furðaði sig á því að rökstuðningur um úthlutun launanna sé ekki gerður opinber.

„Dæmi hafa verið nefnd í umræðunni af rithöfundi sem hefur þegið listamannalaun síðastliðin níu ár hafi skilað litlu meira en einum bókatitli á þeim tíma. Þá hefur stjórnarformaður listamannalauna, Bryndís Loftsdóttir, lýst því yfir opinberlega að listamannalaun séu verkefnatengd laun sem nefndin þarf að rökstyðja en ekki opinberlega. Er ekki rétt að umsóknir listamanna og afrakstur styrkja þeirra verði gerður opinber svo ekkert fari á milli mála fyrir hvað styrkurinn stendur? Þjóðin á rétt á því.“

Klíkuskap beitt
Hann sagði óásættanlegt að Alþingi útvisti úthlutun listamannalauna til listamanna, sem síðar, líkt og dæmi sanni „beita klíkuskap og ógagnsæjum vinnubrögðum við að úthluta listamannalaunum til hvors annars eins og enginn sé morgundagurinn“. Listamenn í þessu skjóli dafni við lítil afköst, skili litlu en séu samt á launum saman.

„Það getur ekki verið hugsun laganna að slíkt sé látið viðgangast. Listamenn og samtök þeirra hafa með vinnubrögðum sínum fyrirgert rétti sínum til að þeim sé treystandi til að sjá um úthlutun launanna. Þá eru listamenn sem halda því fram að hreinar pólitískar ástæður séu fyrir því að sömu listamönnum er haldið frá úthlutun listamannalauna árum og áratugum saman eins og dæmin sanna,“ sagði Ásmundur.

Hann lagði til að tekjutengja úthlutun listamannalauna, þannig að þeir listamenn sem búa við góða afkomu af list sinni fái annars konar viðurkenningu frá þjóðinni. Þá telur hann rétt að sjónum verði í meiri mæli beint til ungra og efnilegra listamanna sem ekki hafi sterkt fjárhagslegt bakland og nýkomnir úr námi, sem og að tengja listamannalaun meira við ákveðin verkefni.

Fundar með stjórn listamannalauna
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra þakkaði Ásmundi fyrir umræðuna og sagði ekki vanþörf á því að ræða listamannalaunin. Hann hyggst funda með stjórn listamannalauna á næstunni.

„Ég hef nú þegar átt samtal við formann stjórnarinnar og ég hyggst, þegar tími gefst, að eiga fund með stjórninni. Ég hef áður fundað með stjórninni, stjórn listamannalauna, en sé ástæðu til þess í ljósi þessarar umræðu að eiga fund við fyrsta tækifæri,“ sagði Illugi.Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira