Fastir pennar

„Er það gott djobb?“

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Frægt er svar Halldórs Laxness þegar Matthías Johannessen kom á hans fund að undirlagi Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra til að vita hvort hann vildi bjóða sig fram til forseta Íslands: „Er það gott djobb?“ Svarið dregur snilldarvel fram fáránleika þessarar málaleitunar og þeirrar hugmyndar sem er svo útbreidd hér á landi, að manneskja sem er góð í einhverju starfi eigi þá einmitt að fara að sinna einhverju allt öðru starfi – og helst því starfi sem viðkomandi er sérlega illa fallinn til að sinna.

Og nú sér maður alls konar fólk gefa sig fram til þess starfa að vera forseti Íslands, og einmitt sérstaklega fólk sem virðist í fljótu bragði illa fallið til starfans.

Þetta er svolítið eins og ef ég labbaði um borð í Brúarfoss og tilkynnti að ég hygðist gefa kost á mér til að vera skipstjóri á því skipi; ég hefði sett upp húfu fyrir framan spegil og tekið mig afar vel út.

Um hvað snýst annars djobbið?

Fulltrúalýðræði

Fulltrúalýðræði er undirstaða og forsenda þeirra stjórnarhátta sem þótt hafa gefast einna best í veröldinni fram til þessa: þingræðisins. Í slíku fyrirkomulagi kýs ég fulltrúa mína til starfa á löggjafarsamkomunni. Ég ætlast til þess af þeim að þeir setji sig inn í flókin mál fyrir mína hönd og ráði fram út þeim eftir bestu getu í anda þeirra lífshugsjóna sem þeir eiga sameiginlegar með mér. Ég vænti þess að þetta fólk starfi með hag heildarinnar að leiðarljósi og kunni að vega og meta ólík sjónarmið og alls konar upplýsingar þegar kemur að því að taka ákvarðanir. Ég vænti þess að þetta fólk hafi yfirsýn um ólíka málaflokka, sem ég hef ekki. Það sérhæfir sig í löggjafarstörfum í mínu umboði. Finnist mér að fulltrúarnir bregðist trausti mínu finn ég mér aðra fulltrúa sem mér þykja endurspegla betur hugmyndir mínar um gott samfélag.

Ein meginforsenda þess að slíkt fyrirkomulag virki er að kosningaréttur sé nokkurn veginn jafn: fulltrúarnir á þingi endurspegli þar með nokkurn veginn vilja og lífshugsjónir kjósendanna sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Af einhverjum ástæðum virðast Íslendingar aldrei líta á þingmenn sem fulltrúa sína. Íslendingar segja alltaf „þeir“ um þingmennina sína og bæta helst einhverju óprenthæfu við. Við erum alltaf bálreið út í þingmennina en virðumst aldrei tengja þá reiði við ráðstöfun eigin atkvæða: það vorum sem sagt við sem sendum þessa vitleysinga þarna inn; þeir eru á okkar vegum; þetta eru ekki „þeir“ heldur „við“. Kannski er þessi hugsunarháttur leifar frá þeim tíma þegar valdið var í Kaupmannahöfn – einhvers staðar langt í burtu og við höfðum lítil tök á því að nálgast það með öðru en bænaskrám og skeleggum fulltrúum við hirðina.

Þetta kann líka að tengjast því að hér hefur aldrei verið jafn kosningaréttur heldur hefur vægi atkvæða ævinlega verið misjafnt eftir landshlutum; atkvæðavægi hefur verið notað til að rétta hlut byggða sem standa höllum fæti, með litlum árangri. Fyrir vikið hefur nálægð kjósenda við þingmenn ýmist verið of mikil eða of lítil; þingmenn hafa virkað sem „skaffarar“ og talsmenn kjördæma við útdeilingu tiltekinna gæða, en annars fremur valdalítið málþófsfólk, sem skiptist á að romsa upp úr sér andsvörum við óræðum til að tefja og þæfa; tungumálið ekki notað til að komast að niðurstöðu heldur til að komast hjá niðurstöðu. Lagasetningin sjálf virðist fara fram meira og minna inni í ráðuneytum eða hjá útgerð og bændasamtökum – og náttúrulega hjá auðmönnum. Í góðærinu tóku raunar auðmennirnir öll völd í landinu af þinginu með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að efnahagskerfi, hugmyndakerfi og siðakerfi þjóðarinnar hrundi. Það var eins og við manninn mælt: almenningur skeiðaði á Austurvöll og henti eggjum og tómötum í vesalings þingmennina; það var eins og enginn rataði alla leið inn í Borgartún.

Þjóðviljinn

Íslenskt fulltrúalýðræði lýsir sér í því að þjóðin kýs sér einn fulltrúa: forsetann. Honum er ætlað að vera „ábyrgðarlaus gagnvart stjórnarathöfnum“ en um leið nokkurs konar fulltrúi þjóðarinnar við háborðið, eiginlega holdtekningur þjóðarviljans.

Og er það gott djobb að vera þjóðviljinn? Væri ekki betra að „málskotsrétturinn“ væri bundinn við tiltekinn fjölda atkvæðisbærra manna eða aðrar skýrar reglur en að þjóðviljinn sé allur samankominn í hausnum á einum „ábyrgðarlausum“ manni? Forsetinn getur nefnilega líka ræktað annars konar vald í samfélaginu, það sem kallað hefur verið „náðarvald“ og er oft vanmetið af stjórnmálaskýrendum, sem sumir virðast enn standa í þeirri trú að áhrif Vigdísar forseta á þjóðlífið hafi verið af skornum skammti.

Mig langar að fá forseta sem ég gæti afborið að hlusta á halda ræður, og ekki nóg með það, heldur fyllti mig andagift og löngun til að gera eitthvað gott og skynsamlegt. Mig langar að fá loksins forseta sem leiðir okkur saman en sundrar okkur ekki, talar ekki niður til okkar, talar ekki um okkur eins og skrumandi sölumaður, en úthúðar okkur ekki heldur; þekkir þau verðmæti sem hér er að finna, þekkir tækifærin sem búa í tækni og úrlausnarefnum á sviði umhverfismála – og getur talað við stjórnmálamenn á öllum köntum, en líka talað máli þjóðarinnar á örlagastundum eins og Ólafur Ragnar gerði svo sannarlega hjá Paxman í frægum þætti. Nú þurfum við að finna slíkan forseta. Vonandi verður þetta ekki eins og í stjórnlagaþingskosningunum þegar öll þjóðin bauð sig fram en skrópaði svo unnvörpum á kjörstað: við eigum örugglega eftir að sjá spennandi frambjóðendur sem verða góðir fulltrúar fyrir nýtt Ísland á nýrri öld, þegar okkur hefur tekist, með skýrari verklýsingu, að gera úr þessu embætti gott djobb.






×