Fótbolti

„Við skjótum okkur ef England kemst ekki upp úr riðlinum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pressan verður á Wayne Rooney og Roy Hodgson í sumar.
Pressan verður á Wayne Rooney og Roy Hodgson í sumar. vísir/getty
Greg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, trúir því að England getur orðið heimsmeistari á næstu árum, en hann hefur mikla trú á nýrri kynslóð fótboltamanna á Englandi.

Næsta stóra verkefni enska liðsins er þó Evrópumótið í Frakklandi þar sem það er í riðli með Wales, Rússlandi og Slóvakíu.

Dyke heimtar að enska liðið komist upp úr riðli og var ansi stórorður þegar hann messaði yfir gestum í veislu þar sem enskir fögnuðu að 50 ár eru liðin frá því England varð heimsmeistari á heimavelli árið 1966.

„Við skjótum okkur ef England kemst ekki upp úr riðlinum,“ sagði Dyke, en BBC greinir frá. „Við verðum að komast upp úr riðlinum. Það verða slæmar fréttir fyrir enskan fótbolta ef það tekst ekki.“

„Við skuldum næstu kynslóð unglinga sem láta sig dreyma um árangur að sýna að við getum orðið heimsmeistarar aftur.“

Dyke sagði að enska knattspyrnusambandið væri það ríkasta í heiminum og hefði mestu tekjurnar. Því yrðu menn þar á bæ að taka á sig hluta sakarinnar.

„Við hefðum átt að vinna HM einhvern tímann á síðustu 50 árum. Við gerðum það ekki. En við munum vinna HM á næstu 50 árum og vonandi sem fyrst,“ sagði Greg Dyke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×