Viðskipti innlent

Greiða bætur vegna tafa á útflutningi

Sveinn Arnarsson skrifar
Framkvæmdastjóri SAH afurða telur fyrirtækið þurfa að greiða háar fjárhæðir í bætur vegna tafa á útflutningi.
Framkvæmdastjóri SAH afurða telur fyrirtækið þurfa að greiða háar fjárhæðir í bætur vegna tafa á útflutningi.
SAH afurðir á Blönduósi hafa ekki getað staðið við samninga sína um útflutning á kjöti og hliðarafurðum vegna verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun. Á annað hundrað tonn af kjöti og um 70 þúsund gærur bíða þess að verða flutt út frá fyrirtækinu til Asíu og Færeyja og mun fyrirtækið þurfa að greiða bætur vegna tafa á flutningnum.

„Þetta er gífurlegt tap fyrir okkur. Gámur sem átti að fara til Færeyja í gær er beint tap þar sem hann kemst ekki á umsömdum tíma. Þar eru bæði heilir skrokkar og fullunnin vara í neytendapakkningum sem átti að fara beint í búðir ytra,“ segir Gunnar Tryggvi Halldórsson, framkvæmdastjóri SAH afurða. „Sendingin til Asíu hefur verið föst í um mánuð en þar bíða 160 tonn af lambakjöti og 70 þúsund gærur. Um mjög góðan samning var að ræða fyrir okkur en nú þurfum við að greiða bætur vegna tafa. Því á eftir að koma í ljós hversu hagstæður samningurinn verður eftir allt saman.“

Verkfall dýralækna hjá Matvælastofnun hefur staðið yfir síðan í byrjun apríl og hefur það haft gríðarleg áhrif á matvælaframleiðslu í landinu, jafnt innflutning sem útflutning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×