Innlent

Þeim fjölgar um 90% sem aldrei lesa bók

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Þróun lestrar síðustu fjögur árin. Úr könnun Capacent.
Þróun lestrar síðustu fjögur árin. Úr könnun Capacent.

Þeim sem aldrei lesa bækur hefur fjölgað úr 7 prósentum í 13,3 prósent á fjórum árum, eða um 90 prósent. Þetta kemur fram í könnun sem Capacent vann fyrir Félag íslenskra bókaútgefenda. Alls lásu 86,7 prósent 18 ára eða eldri að minnsta kosti eina bók á síðasta ári.

Þetta hlutfall er með því hæsta sem gerist í heiminum en Bryndís Loftsdóttir, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir fjölgun þeirra sem aldrei lesa mikið áhyggjuefni.

„Við höldum fast í heiðurinn af því að vera bókmenntaþjóð heimsins og fremst í flokki þegar kemur að því að lesa bækur. Það virðist vera að fjara undan okkur hvað það varðar og við verðum að bregðast við því,“ segir Bryndís.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, segir þessar niðurstöður agalegar.

„Það hringja allar viðvörunarbjöllur þegar maður sér svona upplýsingar og þær krefjast viðbragða frá fleirum en höfundum og bókaútgefendum. Þetta eru mikilvæg skilaboð og verkfæri fyrir stjórnvöld og samfélagið til að nýta sér, í stað þess að fljóta sofandi að feigðarósi.“

Kristín Helga segir að hægt sé að snúa þróuninni við. Mikilvægt sé að einblína ekki aðeins á börnin, fullorðnir verði að lesa líka. „Menntamálaráðherra þarf að leiða þessa bókabyltingu.“

Bryndís kallar líka eftir átaki. „Það þarf að blása til vitundarvakningar. Ef þjóðin setur sér það markmið að hvert okkar klári þrjár bækur á árinu 2015 værum við á góðri leið.“

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Ekki hægt að kenna bókaskatti um
„Ég vil minna á að það eru ekki nema örfáir mánuðir síðan virðisaukaskattur á bækur var hækkaður þannig að við skulum fara varlega í að skýra þessar tölur út frá skattprósentu,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, um það hvort aukin skattheimta spili inn í varðandi minni lestur. Hann vill ekki tjá sig um hvort til greina komi að lækka skattinn.
„Ég hef sagt það áður að þetta er mál sem við munum fylgjast mjög vel með, hvaða afleiðingar það hafði að hækka vaskinn á bækur úr 7 í 12 prósent. Það þýðir að málið er opið hvað það varðar.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira