Innlent

Ofbeldi á fæðingardeildinni var ekki tilkynnt til lögreglu

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Alda Hrönn Jóhannsdóttir segir þörf á fræðslu um heimilisofbeldi á Landspítalanum.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir segir þörf á fræðslu um heimilisofbeldi á Landspítalanum. Vísir/Pjetur
„Hennar er vel gætt og hún hefur fengið góða aðstoð,“ segir fagaðili sem er meðal þeirra sem aðstoða móður sem varð fyrir grófu heimilisofbeldi eftir að hafa fætt tvær dætur sínar í apríl.

Ofbeldishrinan hófst samkvæmt greinargerð lögreglu á fæðingardeild Landspítalans. Hjúkrunarfræðingur staðfesti frásögn móðurinnar um ofbeldi og ógnanir en það var hins vegar ekki tilkynnt til lögreglu.

Barnsfaðirinn braut meðal annars síma og tölvu sem unnusta hans var með á fæðingardeildinni og var hún í sýnilegu uppnámi vegna ofbeldisins. Atvikið átti sér stað skömmu eftir að konan hafði gengið í gegnum keisarauppskurð og fleiri en eitt vitni voru að því.

Skemmri viðbragðstími nauðsyn Hjúkrunarfræðingur sem staðfesti ofbeldi á fæðingardeild hefði mátt tilkynna um það til lögreglu og barnaverndar að mati Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðstoðarlögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Í alvarlegum heimilisofbeldismálum eru skjót viðbrögð nauðsynleg til að tryggja öryggi og heilsu brotaþola. Fréttablaðið/Valli
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sé vakandi fyrir heimilisofbeldi. Rannsóknir sýni að aukin áhætta sé á heimilisofbeldi á meðgöngu. 

„Við vonumst eftir nánara samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og munum leita eftir formlegu samstarfi á svipaðan hátt og lögregla og sveitarfélög hafa gert á höfuðborgarsvæðinu og þá kynna nýjar verklagsreglur lögreglunnar. Viðbragðstíminn þarf að vera mjög stuttur, rannsóknir sýna að áhætta á heimilisofbeldi eykst á meðgöngu og því er full þörf á því,“ segir Alda Hrönn og vísar meðal annars í rannsókn Ástþóru Kristinsdóttur ljósmóður sem leiddi í ljós að 20% íslenskra mæðra hefðu verið beitt ofbeldi af barnsföður á meðgöngu.

Þið hjá lögreglunni hefðuð sem sagt viljað fá símtal frá fæðingardeild vegna þess atviks?

„Við hefðum gjarnan viljað fá símtal frá heilbrigðisyfirvöldum og atvikið minnir okkur á þörfina á að rýna til gagns í kerfið.“ 

Ofbeldið hélt áfram samkvæmt frásögn móður þegar þau fóru af spítalanum og stigmagnaðist.

Maðurinn er talinn hafa lagt hönd á konuna, þrýst á sauma á maga hennar í kjölfar nýafstaðins keisaraskurðar og að auki hafa slegið hana og rifið í hár að viðstaddri eigin móður og dætrum. Foreldrar móðurinnar tilkynntu um málið til lögreglu og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað að maðurinn skyldi sæta nálgunarbanni frá mánudeginum 4. maí, ákvörðun sem Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í vikunni. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×