Innlent

Ráðuneyti rannsaki mál hafnarstjórnar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gylfi Ingvarsson.
Gylfi Ingvarsson. Vísir/Vilhelm
Fulltrúar Samfylkingarinnar og VG í hafnarstjórn Hafnarfjarðar segjast gera alvarlega athugasemd við vinnubrögð meirihlutans í máli starfsmanns hafnarinnar sem veitt var áminning og vilja úttekt innanríkisráðuneytisins á starfi meirihlutans og aðkomu bæjarstjórans að málinu.

„Allt ferlið í þessu máli stenst ekki stjórnsýslulög. Það er ekki hægt að senda bréf í nafni hafnarstjórnar þegar hafnarstjórn hefur aldrei fjallað um þau,“ segir Gylfi Ingvarsson, fulltrúi Samfylkingar í hafnarstjórn.

Málið á upphaf í að Unnur Lára Bryde, fulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður hafnarstjórnar, áminnti hafnarstarfsmann sem sagði starfsfélögum sínum frá því að hann hefði verið kallaður á fund í ráðhúsi bæjarins og verið þar spurður um launamál og stjórnendur hjá höfninni. Taldi starfsmaðurinn sig þar hafa rætt við bæjarstjóra en síðar kom í ljós að svo var ekki. Áminningin var dregin til baka skömmu eftir að hún var veitt.

„Það hefur alltaf verið dregið í efa að þetta viðtal hafi átt sér stað og sagt að bæjarstjórinn hafi ekki vitað af því. Samt er hann í húsinu á sama tíma og viðtalið fór fram fyrir framan skrifstofuna hans. Síðan hefur maður fengið þær upplýsingar að það var ráðgjafi bæjarstjórans sem átti þetta viðtal við hafnarstarfsmanninn,“ segir Gylfi sem vísar þar til starfsmanns fyrirtækisins R3-ráðgjafar.

Unnur Lára Bryde, formaður hafnarstjórnar Hafnarfjarðar.Vísir/Stefán
Hafnar því að nokkuð sé athugavert

„Þetta mál er búið að fara fyrir bæjarráð svo ég veit ekki af hverju verið er að halda því á lífi,“ segir Unnur Lára Bryde, fulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður hafnarstjórnar.

Unnur hafnar því að nokkuð sé athugavert við vinnubrögð meirihlutans í máli hafnarstarfsmannsins. „Við teljum svo ekki vera. Þetta mál var algerlega unnið með lögmanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og vð studdumst við ráðleggingar þeirra. Í bæjarráði hefur verið lagt fram bréf frá lögmanninum þar sem farið er vandlega yfir vinnubrögðin.“

Ósk minnihlutans sem sett var fram í hafnarstjórn í gær verður tekin fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar. „Það hefur þegar verið samþykkt í bæjarstjórn allsherjar úttekt á stjórnsýslu og rekstri allra sviða bæjarins og þetta fellur undir það,“ bendir Unnur Lára á aðspurð um hver afdrif málsins gætu orðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×