Innlent

Dýralæknaþjónusta talin óviðunandi

Sveinn Arnarsson skrifar
Matvælastofnun hefur ekki gildan þjónustusamning við dýralækni til að sinna þjónustu í Þingeyjarsýslum.
Matvælastofnun hefur ekki gildan þjónustusamning við dýralækni til að sinna þjónustu í Þingeyjarsýslum. fréttablaðið/stefán
Bændum í Þingeyjarsýslum finnst þjónusta Matvælastofnunar ófullnægjandi þegar kemur að dýralæknaþjónustu í sýslunum. Enginn starfandi dýralæknir er á svæðinu á dagvinnutíma en þrír dýralæknar skipta með sér bakvöktum um nætur og um helgar.

Dýralæknir á Vopnafirði sinnir flestum bakvaktanna og á hann að sinna bráðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Þetta finnst bændum á svæðinu óviðunandi og telja þeir fráleitt að dýralæknir í órafjarlægð geti sinnt þeirri þjónustu þar sem veður getur auðveldlega spillt færð.

Þjónustusamningar Matvælastofnunar við dýralækna á landsbyggðinni runnu út í lok október síðastliðins. Vignir Sigurólason, dýralæknir á Húsavík, var með þjónustusamning við stofnunina og sinnti hann þessum tilvikum allan sólarhringinn alla daga ársins.

Vignir sótti um áframhaldandi samstarf við Matvælastofnun þegar samningurinn rann út en var aðeins boðinn helmingurinn af þeirri fjárhæð sem hann hafði fengið fyrir verkið áður. Þetta fannst Vigni ekki nægilega gott tilboð og hafnaði hann því boði Matvælastofnunar. Frá þeim tíma hefur enginn dýralæknir tekið að sér að sinna þessari þjónustu og hefur Matvælastofnun ítrekað óskað eftir að dýralæknir tæki þetta að sér en án árangurs.

Vignir segir ástandið ekki gott. Enginn þjónustusamningur sé í gildi í Þingeyjarsýslum sem bitni á þjónustu við bændur í sýslunum. Mikilvægt sé að þessi mál leysist sem fyrst svo bændur á svæðinu fái þá þjónustu sem þeir eiga að fá samkvæmt lögum.

Hermann Aðalsteinsson, kúabóndi á Lyngbrekku í Reykjadal, segir þungt hljóð í bændum á svæðinu. „Það er alveg ljóst að dýralæknir á Vopnafirði mun ekki sinna bráðaþjónustu fyrir kúabændur í Þingeyjarsýslum öllum. Íslensk veðrátta auk vegalengdarinnar er þess eðlis að það mun ekki ganga upp,“ segir Hermann. „Það er slæmt hljóð í okkur kúabændum, þetta er algjörlega óviðunandi ástand að búa við.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er verið að vinna að lausn að því leyti að minnka þjónustusvæðin svo hægt sé að sinna þjónustu við bændur. Á meðan er enginn dýralæknir á dagvakt í Þingeyjarsýslum með þjónustusamning við Matvælastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×