Lífið

Söfnuðu tæplega 800 þúsund krónum fyrir langveika stúlku og fjölskyldu hennar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Anja Mist með mömmu sinni, Guðbjörgu Hrefnu.
Anja Mist með mömmu sinni, Guðbjörgu Hrefnu. mynd/guðbjörg
„Það er alveg dásamlegt að finna svona mikinn stuðning. Ég er bara búin að vera grátandi og hlæjandi hérna til skiptis,“ segir Guðbjörg Hrefna Árnadóttir, móðir Önju Mistar, sem er rúmlega eins árs gömul langveik stúlka, en meðlimir í Facebook-hópnum Góða systir tóku sig saman og söfnuðu tæplega 800 þúsund krónum til styrktar fjölskyldunni nú í aðdraganda jóla. Anna Svava Knútsdóttir sem er með Guðbjörgu í bumbuhópnum Marsmömmur setti söfnunina af stað.

Anja Mist er fyrirburi og var á vökudeild þar til hún varð þriggja og hálfs mánaða. Þegar hún var svo sjö mánaða gömul greindist hún með óþekktan lungnasjúkdóm sem læknarnir standa ráðþrota frammi fyrir.

Anja Mistmynd/guðbjörg
Anja Mist er því búin að vera samfleytt á spítalanum seinustu tvo mánuði með foreldrum sínum og mun litla fjölskyldan halda jólin þar.

„Við vorum á vökudeildinni á jólunum í fyrra en það var allt öðruvísi því þá var hún alveg heilbrigð. Við verðum bara saman hér þrjú og fáum sendan jólamat hingað frá mömmu og tengdamömmu,“ segir Guðbjörg.

Hún segir dóttur sína ótrúlega lífsglaða og segir að henni finnist eins og Anja finni hvað fjölskyldan fái mikinn stuðning úr ótal áttum. Það sé líka þannig að þegar mömmu og pabba líði vel þá líði henni líka vel.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×