Bíó og sjónvarp

Hátíðarþáttamaraþonið er formlega hafið

Guðrún Ansnes skrifar
Nokkrir dagar eru til stefnu, og þá er kjörið að nýta til almennrar leti sem leyfist sjaldan utan jóla.
Nokkrir dagar eru til stefnu, og þá er kjörið að nýta til almennrar leti sem leyfist sjaldan utan jóla. vísir/getty
Þó svo að aðfangadagur og jóladagur hafi runnið sitt skeið er hátíðin ennþá í blússandi gangi sem slík, og margir hverjir í verðskulduðu jólafríi, aðrir tvinna saman gleðina við vinnu með tilheyrandi sjálfsdekri milli stríða.

Fyrir alla þá sem ætla sér að slaka á til hins ýtrasta er gráupplagt að henda sér í sófann og taka vel valið þáttamaraþon. Hvort sem fólk ætlar sér að kanna nýjar lendur eða róa á gömul mið er nokkuð víst að af nógu er að taka. Vísir ætlar að auka enn frekar á leti lesenda og deilir hér með hugmyndum að skotheldum þáttaröðum sem ættu að fá flesta til að vilja halda sig í náttbuxunum þar til á nýju ári.

Flesh and Bone
Flesh and bone

Hæfileikarík ballettdansmær, Claire Robbins, flytur til New York með ansi skrautlega fortíð á bakinu, þar sem hún lendir í klikkuðum aðstæðum innan ballettsenunnar. Í stuttu máli flækist Robbins inn í hringiðu Paul Gray­son, stjórnanda the American Ballet Company, þar sem drama á drama ofan virðist eiga sér stað og átök í hverju horni. Þættirnir fóru í loftið í nóvember á þessu ári og hafa fengið glimrandi dóma. Þættirnir eru sýndir á Stöð 2 á miðvikudagskvöldum.

IMDb: 8,1





Allir kátir hér.
Shameless

Dramablandnir grínþættir þar sem alkóhólistinn Frank Gallagher ásamt sex manna fjölskyldu reynir að halda friðinn með tilheyrandi árekstrum. Persónur þáttanna eru einstaklega skrautlegar, svo það er auðvelt að festast í þessum. Þegar eru komnar út sex seríur sem vel er hægt að gleyma sér í dágóða stund. Þessir þættir verða svo sýndir á Stöð 2 eftir áramót, en fyrri seríur hafa einmitt verið sýndar á sömu stöð.

IMDb: 8,7

Mr. Robot

Ungur forritari sem þjáist af félagsfælni og alls konar öðrum kvillum kemur sér upp skuggalegum tengslum innan raða tölvuhakkara, sem hann nýtir sér svo til anarkískra aðgerða og felur sig á bak við dulnefnið Mr. Robot. Þættir sem koma á óvart, og vaxa hratt í vinsældum.

IMDb: 8,9

Ofurhetja sem skiptir um starfsvettvang, auðvitað.
Jessica Jones

Þættir byggðir á einni ofurhetju Marvel, Jess­icu Jones, sem eftir dágóða lægð í ofurhetjubransanum ákveður að venda kvæði sínu í kross og gerast einkaspæjari. Kjörin sería fyrir hasar-, glæpa- og dramaþáttaaðdáendur. 

IMDb: 8,5

Escobar hefur hrifið heimsbyggðina með sér í þessum þáttum.
Narcos

Þættir sem eru byggðir á sannri sögu kólumbíska kókaínbarónsins Pablo Escobar og segja frá hvernig kókaín dreifðist hratt og örugglega út um allan heim fyrir tilstilli kauða. Einni seríu er lokið og þeir eru ófáir sem telja þessa þætti þá bestu á árinu. Önnur sería er rétt handan við hornið.

IMDb: 9,0

Making a Murderer ætlar allt um koll að keyra.
Making a Murderer

Heimildaþáttasería sem er tekin á tíu ára tímabili. Serían reynir að varpa ljósi á spillingu innan lögreglustjóraembætt­isins í í Manitowoc-sýslu og segir frá lífi Stevens Avery, Bandaríkjamanns sem sat í inni í 18 ár fyrir nauðgun, en Making a Murderer hefur verið borin saman við þættina The Jinx og hlaðvarpið Serial sem hljóta að teljast ansi góð meðmæli.

IMDb: 9,4

Hverskyns morðþættir eiga greinilega uppá pallborðið hjá áhorfendum um þessar mundir.
How to Get Away with Murder

Bandarísk sjónvarpsþáttasería sem segir frá lögfræðingnum Annalise Keating sem ásamt fimm nemendum sínum flækist inn í morðmál. Komnar eru út tvær seríur af How to Get Away with Murd­er svo það er hægt að sökkva sér ofan tuttugu og fjóra þætti af lögfræðidrama með jólakonfektinu.

IMDb: 8,3

The Jinx: The Life and Deaths of Robert Durst

Heimildaþáttaröð sem vakti heldur betur athygli á árinu og hlaut mikið lof. Í þáttunum er kafað ofan í mannshvarf frá árinu 1982, óhugnanleg morð á rithöfundinum Susan Berman árið 2000 og Morris Black árið 2001. Þáttaröðin hefur vakið mikla athygli fyrir að vera einstaklega vel klippt og halda áhorfendum á sætisbrúninni allt til loka. Við mælum samt með að njóta hennar í þægilegum sófa eða stól. Þess ber að geta að þessa þætti má nálgast afar löglega inn á Stöð 2 Maraþon. 

IMDb: 8,9

Fargo
Fargo

Stórskemmtileg þáttasería sem gerð er upp úr samnefndri kvikmynd frá árinu 1996. Fyrri serían vann til dæmis til fjölda Emmy-verðlauna og einnig vann Billy Bob Thornton til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn. Í seinni seríunni var öllum leikurunum skipt út og spólað um þrjátíu ár aftur í tímann.

IMDb: 9,0


Tengdar fréttir

Sakamálið varð að þáttaröð og svo aftur að sakamáli

Auðkýfingurinn Robert Durst, sem sakaður er um að hafa myrt að minnsta kosti tvær konur og einn karl sem honum tengdust, er nú kominn aftur í fangelsi. Hann var til ummfjöllunar í vinsælli þáttaröð á HBO.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×