Jól

Dýrmætar minningar úr æsku

,,Ég man hvar og hvenær ég keypti hvern grip,“ segir Ólöf Breiðfjörð, kynningarstjóri Þjóðminjasafns Íslands.
,,Ég man hvar og hvenær ég keypti hvern grip,“ segir Ólöf Breiðfjörð, kynningarstjóri Þjóðminjasafns Íslands. MYNDIR/ANTON
Þýskar jólahefðir og þýskt jólaskraut skipa stóran sess í fjölskyldu Ólafar Breiðfjörð, kynningarstjóra Þjóðminjasafns Íslands. Ólöf bjó í útlöndum í fimmtán ár, þar af níu í Þýskalandi, með eiginmanni sínum og þremur sonum sem allir fæddust ytra.

Jólamarkaðir á aðventunni og handunnið jólaskraut eru meðal þess sem stendur upp úr í minningunni frá Þýskalandsárunum en jólahald fjölskyldunnar hefur alla tíð einkennst af bæði þýskum og íslenskum jólasiðum.

Ólöf var sautján ára þegar hún flutti til Þýskalands og féll strax fyrir þýsku jólamörkuðunum. „Ég kunni strax að meta þessa stemningu þar sem fólk hittist, drekkur jólaglögg, borðar pylsur og kaupir ýmislegt smálegt til gjafa. Seinna uppgötvaði ég hvað aðventan er mikilvægur tími fyrir góðar fjölskyldustundir.“

Ekkert tískuskraut

Þýskt jólaskraut er áberandi á heimili þeirra hjóna sem að sögn Ólafar minnir hana alltaf á þennan dýrmæta tíma sem þau áttu saman í Þýskalandi. 

„Jólaskrautið er allt handgert og ég safnaði því í mörg ár. Það er ekkert tískuskraut sem maður skiptir út heldur eitthvað sem byggir á gamalli handverkshefð og fer ekki á milli mála að hefur tekið tíma og þurft natni að búa til.“



Meðal jólaskrautsins nefnir Ólöf engla sem spila á hljóðfæri en þeir eru dæmigert handgert þýskt jólaskraut. „Annað hefðbundið jólaskraut er reykkarl en hægt er að lyfta búknum og þá kemur í ljós holrými þar sem litlu reykelsi er komið fyrir. Þegar kveikt er á því og búknum á karlinum komið fyrir þá kemur reykelsisreykur út um munninn á honum.“

Einnig nefnir hún til sögunnar jólapíramída. „Þegar kveikt er á kertunum snúast spaðarnir efst og þá snúast hæðirnar með Jesúbarninu, Maríu og Jósef, hirðunum og dýrunum.“

Persónulegir jólamunir

Það er ekki bara þýskt jólaskraut sem er í miklu uppáhaldi hjá Ólöfu. Aðeins tveggja vikna gömul fékk hún jólakúlu í skóinn frá jólasveininum sem hefur fylgt henni alla tíð. „Hún er svo sem ekkert glæsileg en fær alltaf heiðurssess á jólatrénu. Nær allt jólaskrautið á trénu tengist sérstökum minningum. Ég man hvar og hvenær ég keypti hvern grip eða hver gaf okkur. Fyrir vikið er það alltaf mjög mikilvæg stund þegar tréð er skreytt.“

Þegar Ólöf var fimm ára gömul eignaðist hún bróður og fékk þá álfaskraut í skóinn frá jólasveininum. „Ég stelst reyndar til að hafa álfinn uppi allan ársins hring og hann hefur fylgt mér í flutningum milli landa.“






×