Innlent

Tvær evrur breyttust í hundrað milljónir

Jakob Bjarnar skrifar
„En, nei, jólin verða ekkert vandamál þetta árið. Ég býst ekki við því,“ segir Hrólfur sem á nokkur börn. „Það verða sæmilega ríflegar jólagjafir þetta árið.“
„En, nei, jólin verða ekkert vandamál þetta árið. Ég býst ekki við því,“ segir Hrólfur sem á nokkur börn. „Það verða sæmilega ríflegar jólagjafir þetta árið.“
Maður nokkur datt í lukkupottinn að morgni föstudags; hann vann 102 milljónir á Betsson. Um er að ræða Reykvíking á fimmtugsaldri, hann er atvinnulaus en hefur starfað sem bílstjóri. Hann er margra barna faðir og segir, í samtali við Vísi, að jólagjafirnar verði ekkert vandamál þetta árið.

Bílaflotinn endurnýjaður

„Jújú, það er ekki laust við að maður sé ánægður með þetta. Ég hef verið að svífa rólega til jarðar um helgina og kanna hvernig á að snúa mér í þessu,“ segir maðurinn sem ekki vill láta nafns síns getið, en verður hér nefndur Hrólfur. Hann segist vilja fá ráðrúm til að kanna hvernig þetta allt líti út og hvernig sé best sé að snúa sér í þessu til að mynda gagnvart skatti og öðru slíku. Það er eitt og annað sem þarf að athuga.

En, eitthvað hlýtur nú að liggja fyrir, hvernig þú ætlar að verja fénu?

„Jú, ætli það verði ekki eitthvað sem snýr að húsnæðismálum og svo kannski endurnýjar maður bílaflotann,“ segir hinn heppni Reykvíkingur, sem sér jafnframt fyrir sér að það rætist úr atvinnumálum í kjölfarið.

Fótboltaáhugamaður og tippari

En, hvernig atvikaðist þetta, hvaða leikur var þetta? Um er að ræða lukkuhjól, Betsson Classic Ring the Bells. Þetta er leikur sem er samtengdur við aðra leiki, það er ef menn fá sérstök bónustákn færast þeir inn á svæði þar sem möguleiki er á bronspotti. Þar eru smávinningar og svo örvar sem færa spilara áfram og þannig gekk þetta fyrir sig hjá okkar manni, sem fékk örvar sem leiddu hann áfram að gullpottinum, sem datt.

„Það eru tvær evrur sem lagðar eru undir á snúninginn þannig að tvær evrur breyttust í 102 milljónir. Ég er fótboltaáhugamaður og hef gaman að því að tippa á enska boltann. Og legg stundum á eitthvað svona til hliðar. Og þessi varð niðurstaðan,“ segir lukkunnar Hrólfur. Hann segist hafa þann háttinn á að kaupa sér inneign fyrir um fimm til tíu þúsund krónur um hver mánaðarmót og það dugi oftast vel út mánuðinn.

Börnin fá rausnarlegar jólagjafir

„Maður nær að gera eitthvað fyrir það og halda sjó út mánuðinn. Þetta er svona mín leið til að spila í lottó eins og margir gera. Ég er mikill fótboltaáhugamaður og hef gaman að því að tippa. Og það eru betri líkur á Betsson en á íslenskum veðmálasíðum,“ segir Hrólfur.

Hann segir að sinn nánasti hringur ráðleggi honum að flýta sér hægt. „En, nei, jólin verða ekkert vandamál þetta árið. Ég býst ekki við því,“ segir Hrólfur sem á nokkur börn. „Það verða sæmilega ríflegar jólagjafir þetta árið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×