Fótbolti

„Ef Young er United-leikmaður þá er ég Kínverji“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Young fékk tiltal frá dómaranum í leiknum gegn CSKA Moskvu.
Young fékk tiltal frá dómaranum í leiknum gegn CSKA Moskvu. Vísir/Getty
Roy Keane, fyrrum fyrirliði Manchester United, var ekki hrifinn af frammistöðu Ashley Young í leik United gegn CSKA Moskvu í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld.

Young reyndi að fiska vítaspyrnu í leiknum en það er ekki í fyrsta skiptið sem hann verður uppvís að leikaraskap á knattspyrnuvellinum.

„Ef að Ashley Young er United-leikmaður þá er ég Kínverji. Hann er algjörlega til skammar,“ sagði Keane sem hefur það orð á sér að vera mikill harðjaxl.

Sjá einnig: Rooney endaði 404 mínútna bið og tryggði United sigur

„Hinir leikmennirnir þurfa að grípa í taumana. Svona hegðun á ekki að vera liðin hjá Manchester United. Það er eitt að rétta út fótinn en að taka svona kollhnís eins og hann gerði er algjörlega til skammar.“

„Að láta svona einu sinni eða tvisvar eru mistök. En hann hefur gert þetta níu eða tíu sinnum og hann gerði þetta líka hjá fyrri félögum.“

Paul Scholes, fyrrum samherji Keane hjá United, tók undir orð hans. „Ashley verður að hætta þessu. Hann veit það best sjálfur en þetta er vani hjá honum og hann á erfitt með að láta af honum.“

„Hann er virkilega góður leikmaður og þarf ekki að grípa til svona úrræða. En ég held að þetta sé bara orðið hluti af honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×