Fótbolti

Jón Guðni undir smásjánni hjá sænsku meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Guðni hefur verið í herbúðum Sundsvall frá árinu 2012.
Jón Guðni hefur verið í herbúðum Sundsvall frá árinu 2012. mynd/facebook-síða sundsvall
Nýkrýndir Svíþjóðarmeistarar Norrköping hafa áhuga á Jóni Guðna Fjólusyni, miðverði Sundsvall, að því er fram kemur í frétt Sportexpressen.

Líklegt þykir að Jón Guðni verði fyrsti leikmaðurinn sem Norrköping kaupir fyrir titilvörnina á næsta ári en liðið tryggði sér sænska meistaratitilinn með 0-2 sigri á Malmö í gær. Þetta er fyrsti meistaratitill Norrköping frá árinu 1992.

Meðal þeirra leikmanna sem gætu yfirgefið Norrköping á næstunni er varnarmaðurinn David Boo Wiklander en Jón Guðni er hugsaður sem arftaki hans.

Haft er eftir Magnúsi Agnari Magnússyni, umboðsmanni Jóns Guðna, að nokkur lið í Skandinavíu séu á höttunum eftir miðverðinum sterka en samningur hans við Sundsvall rennur út um áramótin.

Verði félagaskiptin að veruleika verður Jón Guðni annar Íslendingurinn í herbúðum Norrköping ásamt Arnóri Ingva Traustasyni sem átti frábært tímabil í ár.

Arnór lagði upp fyrra mark Norrköping í sigrinum á Malmö í gær og skoraði það síðara. Hann gerði alls sjö mörk á tímabilinu og gaf 10 stoðsendingar, flestar allra í sænsku deildinni.

Sjá einnig: Sjáðu markið og stoðsendinguna hjá Arnóri Ingva | Myndband

Jón Guðni lék 28 af 30 deildarleikjum Sundsvall á tímabilinu og skoraði eitt mark. Sundsvall endaði í 12. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×