Menning

Mannlegt nautaat í heimi samkeppninnar

Magnús Guðmundsson skrifar
Vala Kristín Eiríksdóttir leikkona stígur á fjalir Nýja sviðs Borgarleikhússins annað kvöld í verkinu At.
Vala Kristín Eiríksdóttir leikkona stígur á fjalir Nýja sviðs Borgarleikhússins annað kvöld í verkinu At. Visir/AntonBrink
Í kvöld frumsýnir Leikfélag Reykjavíkur á Nýja sviði Borgarleikhússins verkið At eftir breska leikskáldið Mike Bartlett. Leikstjórn er í höndum Kristínar Eysteinsdóttur en leikendur eru þau Valur Freyr Einarsson, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Eysteinn Sigurðarson og Vala Kristín Eiríksdóttir en tvö þau síðastnefndu eru bæði nýútskrifuð frá Listaháskólanum.

Vala Kristín, sem er eina konan á sviðinu, segir að hér sé á ferðinni bráðskemmtilegt verk enda Bartlett á meðal afkastameiri og vinsælli höfunda Breta um þessar mundir. „Þetta er verk sem talar ákaflega beint inn í samtímann og ég held að það eigi mjög breiður hópur eftir að hafa gaman af þessu.

Verkið gerist í viðskiptaheiminum í ákaflega samkeppnismiðuðu umhverfi og það eru þarna þrír einstaklingar, tveir ungir menn og ein kona, sem eru í þriggja manna liði að keppast um tvær stöður innan fyrirtækisins. Þau eru að bíða eftir yfirmanni sínum til þess að komast að því hvert þeirra þriggja verður rekið. Við þessar aðstæður fara tvö þeirra að leitast við að draga úr sjálfstrausti þess þriðja til þess að koma honum úr jafnvægi í von um að það muni koma þeim áfram.

Vala
Þannig að þetta fjallar um hversu langt manneskjan er reiðubúin að ganga til þess að ná sjálf árangri og komast áfram í lífinu. Þetta er óneitanlega sama hegðun og við sjáum t.d. hjá litlum krökkum sem berjast um dótið sitt og annarra og eru gjörsamlega óvægin í viðleitni sinni til þess að hafa betur og hafa hlutina eftir sínu höfði. Fólkið í skrifstofuheiminum er kannski aðeins fágaðra og klárara en börnin en í grunninn er þetta óneitanlega eitt og hið sama. 

Málið með Mike Bartlett er að hann nær að gera þetta á svo ótrúlega skemmtilegan máta en innblásturinn í verkið sótti hann í nautaat. Þegar maður skoðar verkið þá kemur í ljós að það er byggt upp eins og nautaat. Eitt naut og svo nautabanar sem eru að reyna að koma því á kné en svo er spennandi sjá hvort nautið nær að koma höggi á nautabanann og hvernig þetta fer allt saman að lokum.“

Vala Kristín bendir á að vissulega sé samfélagið í dag ákaflega samkeppnismiðað. Það þekki hún bæði úr sínu fagi sem og samfélaginu almennt. „Ég hef ekki upplifað þetta alveg sjálf en óneitanlega þekkir maður aðeins þessar týpur og kannast við ýmislegt úr þessu umhverfi. Íslenskt samfélag er óneitanlega mjög samkeppnismiðað enda er krökkum snemma potað í að keppa og metast með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er einkunnagjöf í skóla eða flokkunin í íþróttunum þar sem vægi þeirra er metið út frá því hvað þau geta. Ég man eftir þessu frá því ég var sjálf í handbolta og ég þoldi þetta ekki og hætti út af þessu. Einn daginn var maður í náðinni þegar manni gekk vel en þann næsta ekki virtur viðlits þegar á móti blés og það er ekki heilbrigð leið til þess að ala metnað í fólki. 

Auðvitað getur samkeppni verið holl en það er svona spurning hvernig við komum fram við hvert annað á leiðinni. Kunnum við að tapa og kunnum við að vinna? Allt er þetta til í okkur öllum og því ættum við öll að geta þekkt okkur í persónum verksins með einum eða öðrum hætti.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×