Fótbolti

Albert að feta í fótspor Eiðs Smára?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Albert (til hægri) fagnar titli með Heerenveen á dögunum. Með honum á myndinni er uppeldisvinur hans, körfuknattleikskappinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson.
Albert (til hægri) fagnar titli með Heerenveen á dögunum. Með honum á myndinni er uppeldisvinur hans, körfuknattleikskappinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson.
Hollenskir miðlar fullyrða í morgun að knattspyrnukappinn Albert Guðmundsson sé á leiðinni í raðir PSV Eindhoven frá Heerenveen. Albert, sem er uppalinn KR-ingur, hélt utan fyrir tveimur árum þegar hann samdi við hollenska félagið.

Í frétt hollenska miðilsins Eindhovens Dagblad í morgun kemur fram að áhugi Alberts og PSV sé gagnkvæmur. PSV vonist eftir því að geta gengið frá samningi við Albert hið fyrsta.

Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, hóf atvinnumannaferil sinn hjá PSV Eindhoven á táningsaldri og hitti þar fyrir meðal annars hinn brasilíska Ronaldo.

Albert, sem er á átjánda aldursári, á ekki langt að sækja knattspyrnuhæfileikana eins og oft hefur komið fram. Hann er sonur knattspyrnufólksins Guðmundar Benediktssonar og Kristbjargar Ingadóttur. Afi hans er Ingi Björn Albertsson og langafi og alnafni, Albert Guðmundsson, er talinn einn besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur alið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×