Innlent

Þátttaka í kosningum um kjarasamninga VR betri nú en áður

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, hvetur félagsmenn til að kjósa.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, hvetur félagsmenn til að kjósa. Vísir
„Við vorum að senda tölvupóst á félagsmenn. Við vonumst til þess að þeir nýti kosningaréttinn sinn, það eru ekki nema tveir tímar eftir,” segir Ólafía B. Rafnsdóttir en eins og fram kom á Vísi í morgun hafa rétt rúmlega 17 prósent félagsmanna VR kosið um nýjan kjarasamning.

Ólafia tekur þó fram að þetta sé ívið betri kosningaþátttaka en síðast þegar kosið var um nýjan kjarasamning árið 2013. „Þá voru það þrettán prósent sem kusu. Það er almennt ekki mikil kjörsókn þegar verið er að greiða atkvæði um kjarasamninga.” Engar kröfur eru gerðar um lágmarksþátttöku í slíkri kosningu heldur er það meirihlutinn sem ræður.

Sjá einnig: Launin hjá VR hækka svona mikið

„Vonandi náum við upp í tuttugu prósentin, það væri óskandi.” Hún veit ekki hvað veldur aukinni kosningaþátttöku nú í ár. „Það er spurning hvort við höfum vakið meiri athygli á þessu eða hvort félagsmenn eru meðvitaðri. Þetta er alls ekki gott að félagsmaðurinn skuli ekki nýta sér það að kjósa. Þetta er rafræn kosning þannig að þetta getur ekki verið auðveldara.”

Atkvæðagreiðslu lýkur klukkan 12.00 en niðurstöðu er að vænta um 12.30. Rúmlega 26 þúsund félagsmenn VR hafa atkvæðisrétt.

Uppfært:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var því haldið fram fyrir mistök að atkvæðagreiðslu lyki kl. 12.30. Henni lýkur 12.00.


Tengdar fréttir

Vöffluveisla hjá VR

Samingurinn fer nú í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×